ÍRB sigraði á Sundmeistaramóti Íslands
Lið ÍRB lauk tímabilinu með stæl þegar sundfólk þess sigraði í keppni liða á SMÍ nú um helgina í Kópavogi. Liðið vann til 11 gullverðlauna, 9 silfurverðlauna og 10 bronsverðlauna, eða alls 30 verðlaun. Lið SH var í öðru sæti með 10 gull, 11 silfur og 2 brons og lið Ægis í þriðja sæti með 9 gull, 3 silfur og 6 brons Þetta var þriðja árið í röð sem liðsmenn ÍRB unnu liðakeppni Sundmeistarmóts Íslands. Frábær endir á tímabilinu hjá liði ÍRB en með þessum sigri lauk liðið tímabilinnu með fullu húsi. Liðið vann því í ár alla þá titla sem í boði voru í mótum á vegum SSÍ ásamt fjölmörgum öðrum titlum.
Þeir einstaklingar sem unnu til Íslandsmeistaratitla á Sundmeistaramótinu 2004 voru: Hilmar Pétur Sigurðsson í 1500m skriðsundi, Guðni Emilsson í 200m bringusundi, Þóra Björg Sigurþórsdóttir í 200m baksundi, Erla Dögg Haraldsdóttir í 200m bringusundi, 50m bringusundi, 100m flugsundi og 200m flugsundi og Birkir Már Jónsson í 200m skriðsundi, 100m baksundi, 200m baksundi og 50m baksundi.