ÍRB með 19 gull á IMÍ!
Sundfólk ÍRB hélt uppteknum hætti á Innanhússmeistaramóti Íslands í Vestamannaeyjum í gær.
Erla Dögg Haraldsdóttir vann til tveggja gullverðlauna, Íris Edda Heimisdóttir hlaut tvö silfur og Helena Ósk Ívarsdóttir fékk eitt brons.
Örn Arnarson hreppti þrenn gullverðlaun í gær og Birkir Már Jónsson sigraði í 400m skriðsundi. Hilmar Pétur Sigurðsson var í öðru sæti í þeirri grein.
Boðsundslið karla vann með glæsibrag í 4x100m skriðsundi og kvennaliðið endaði daginn á því að lenda í 3. sæti í 4x100m skriðsundi.
Árangur ÍRB á mótinu er sérlega glæsilegur, eða 19 Íslandsmeistaratitlar af 40 mögulegum. 4 stúlknamet og ógrynni persónulegra meta litu einnig dagsins ljós á þessu móti og er ljóst að sundmenn í Reykjanesbæ eru í fantaformi um þessar mundir.