Írarnir höfðu betur í boxveislunni
Úrvalssveit íslenskra hnefaleikakappa varð í kvöld að lúta í lægra haldi gegn írskum gestum sínum í hnefaleikahöllinni í Reykjanesbæ. Írarnir höfðu betur 5-3 en kvöldið heppnaðist vonum framar. Talið er að rúmlega 300 manns hafi lagt leið sína á hnefaleikaviðburðinn og var stemmningin mögnuð og keppendur kynntir til leiks með tilheyrandi rokktónlist og ljósasýningum.
Vikar Sigurjónsson barðist í síðasta bardaga kvöldsins fyrir íslenska liðið og stóð sig með miklum ágætum en varð samt að láta í minni pokann gegn írskum andstæðingi sínum.
Gunnar Örlygsson, alþingismaður, var kynnir kvöldsins og hélt góðum takti á keppninni. Guðjón Vilhelm, forstöðumaður Hnefaleikafélags Reykjaness, bar hitann og þungann af skipulagi keppninnar en hann var hæstánægður með hvernig til tókst og sagði því ekkert til fyrirstöðu að halda fleiri keppnir nú þegar aðstaðan væri orðin jafn góð og raun ber vitni.
Írski hnefaleikamaðurinn Luke var valinn hnefaleikamaður kvöldsins en þar fer snaggaralegur og áræðinn bardagamaður sem sýndi glæsileg tilþrif í sínum bardaga.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]