ÍR sópaði Njarðvík inn í sumarið
Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí eftir tap gegn ÍR í 8-liða úrslitum Intersport-deildarinnar. Njarðvíkingar töpuðu fyrri viðureign liðanna í Ljónagryfjunni 101-106 og leiknum í gærkvöld 86-83. Sennilega bjuggust fæstir við þessum úrslitum en ÍR-ingar voru vel að sigrinum komnir og sópuðu þeir Njarðvíkingum inn í sumarið.
Heimamenn höfðu frumkvæðið í leiknum og komust í 6-4, Njarðvíkingar tóku sig þó saman í andlitinu og höfðu forskotið eftir fyrsta leikhluta 18-19 þar sem Brenton Birmingham skoraði um leið og flautan gall.
Í 2. leikhluta fóru ÍR-ingar hreint út sagt á kostum og voru fljótir að breyta stöðunni í 31-27. Á meðan voru gestirnir frá Njarðvík að henda frá sér boltanum í gríð og erg, fór þar fremstur í flokki Alvin Snow en hann reyndi að spila uppi samherja sína sem oft á tíðum áttu erfitt með að átta sig á sendingum hans. Sóknaraðgerðir Njarðvíkinga voru bitlausar í 2. leikhluta og skoruðu þeir grænklæddu einungis 12 stig í leikhlutanum á mót 26 stigum heimamanna. Friðrik Stefánsson og Guðmundur Jónsson fengu báðir sína 3. villu í leikhlutanum ásamt Grant Davis hjá ÍR. Staðan að loknum 2. leikhluta var 44-31 fyrir ÍR-inga og á brattan að sækja hjá Njarðvík.
Eiríkur Önundarson opnaði seinni hálfleik með þriggja stiga körfu fyrir ÍR og staðan því 47-31. Ólafur Aron hóf leikinn í leikstjórnanda stöðunni hjá Njarðvík á meðan Alvin Snow fékk hvíld. Ekki fór að birta til hjá Njarðvíkingum fyrr en undir lok 3. leikhluta þegar Alvin Snow kom aftur inn á leikvöllinn. Hann setti um leið niður þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 11 stig og strax í næstu sókn tókst Njarðvíkingum að komast undir 10 stiga múrinn og staðan því 60-51. Góður endasprettur gestanna kom þeim í 62-54 fyrir 4. leikhluta.
Ekki var laust við að pirrings gætti á meðal leikmanna og áhorfenda hvað dómgæsluna varðaði. Alls voru 49 villur dæmdar í leiknum en ekki er hægt að segja að hallað hafi á annað hvort liðið. Engu að síður var 4. leikhluti æsispennandi og í stöðunni 81-69 neitaði Brenton Birmingham að gefast upp. Setti hann niður þrjár þriggja stiga körfur og staðan því 82-78 en ÍR-ingar fóru einu sinni á vítalínuna í þessari rispu Brentons. Þó fór það þannig að ÍR héldu út þetta áhlaup Njarðvíkinga og höfðu sigur úr býtum 86-83.
Theo Dixon var drjúgur fyrir ÍR og skoraði 25 stig ásamt því að taka sjö fráköst. Eiríkur Önundarson var einnig heitur og setti 21 stig og gaf sjö stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Brenton Birmingham með 20 stig og Alvin Snow 18.
Eins og fyrr greinir þá eru Njarðvíkingar komnir í sumarfrí en ÍR-ingar fyrst liða til þess að tryggja sig áfram í fjórðungsúrslit.
Tölfræði leiksins
VF-mynd/ úr safni