Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

ÍR-ingar áttu ekki séns
Föstudagur 2. nóvember 2007 kl. 00:45

ÍR-ingar áttu ekki séns

Það er ekki ofsögum sagt að ÍR hafi farið erindisleysu suður með sjó í kvöld þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir Keflvíkingum í Iceland Expressdeild karla 110-79.

Keflvíkingar léku lengst af góða vörn, voru einráðir í teigunum í fráköstum og léku fumlausan og flæðandi sóknarleik.

Breiðhyltingar stóðu í heimamönnum í fyrsta leikhluta, en eftir hann var staðan 24-20, þar sem Hreggviður Magnússon átti góðan leik. Hann skoraði alls29 stig í leiknum og var yfirburðamaður í sínu liði.

Keflvíkingar voru að missa nokkuð af boltum að óþörfu, en unnu það upp með því að vera einráðir í fráköstum.

Leiðir skildu með liðunum í öðrum leikhluta þar sem fyrirliðinn Magnús Þór Gunnarsson var sjóðheitur og skoraði 10 stig. Munurinn var 13 stig í hálfleik, 52-39, og Keflvíkingar farnir að sýna sitt rétta andlit.

Seinni hálfleikur reyndist Keflvíkingum allt að því auðveldur þar sem þeir stjórnuðu leiknum að öllu leyti. Munurinn jókst smátt og smátt og ÍR sá aldrei von til þess að sigra.

Lokastaðan var, eins og fyrr sagði, 110-79 og sitja Keflvíkingar einir að toppsætinu í bili. Það er erfitt að draga fram einhvern einn leikmann Keflavíkur sem skarar framúr, en Tommy Johnson og Anthony Susnjara áttu báðir prýðisleik. Johnson er frábær skytta sem hitti úr 4 af 7 3ja stiga skotum og Susnjara var seigur undir körfunni í fráköstum og baráttu. Bobby Walker hefur átt betri daga. Hann lauk leik með 15 stig, þar af 10 á lokasprettinum þegar leikurinn var i raun búinn.
Þá áttu Magnús Þór og Jón Norðdal Hafsteinsson skínandi leik líkt og Arnar Freyr Jónsson.

Næsti leikur Keflvíkinga verður á föstudag í næstu viku þegar þeir taka á móti Íslandsmeisturum KR.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/Þorgils
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024