Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 11. desember 2003 kl. 21:41

Intersport-deildin: Njarðvík sigrar KFÍ á Ísafirði

Njarðvíkingar unnu góðan sigur á KFÍ á útivelli í Intersport-deildinni í kvöld. Lokastaðan var 98-104 gestunum í vil og er ljóst að þeir slá hvergi slöku við í eltingaleik sínum við Grindvíkinga, sem spila við botnlið ÍR á morgun.

 

Njarðvíkingar höfðu góð tök á leiknum lengst af eins og búist var við en Ísfirðingar spiluðu ágætlega og þurfa ekki að skammast sín fyrir sinn leik í kvöld. Þar eru nefnilega ekki öll lið sem skora 98 stig á móti Njarðvíkingum sem hafa á að skipa einni bestu vörn deildarinnar. Þó kom að því í þriðja leikhluta að Njarðvík náði 18 stiga forskoti og gat tekið fótinn af bensíngjöfinni og leyft öllum að spreyta sig.

 

Friðrik Ragnarsson þjálfari var mjög sáttur við sigurinn, sem hann sagði að hefði aldrei verið í hættu. „Já, þetta var tiltölulega auðveldur sigur. Ég gat leyft mér að hvíla lykilmenn eins og Brenton og Brandon undir lokin og leyft ungu strákunum að spreyta sig. Ísfirðingarnir voru í sjálfu sér ekki að spila illa, en við slökuðum á undir lokin og þá náðu þeir að saxa svona á forskotið.“

 

Friðrik Stefánsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 25 stig og 10 fráköst og Páll Kristinsson kom næstur með 24 stig. Brenton Birmingham skoraði 21 stig og Brandon Woudstra skoraði 19.

Jeb Ivey var stigahæstur heimamanna með 27 stig, en Adam Spanich og Darco Ristic skoruðu 20 stig hvor.

 

Tölfræði leiksins má finna hér

 

Að loknum 10 umferðum er Njarðvík í öðru sæti sem fyrr með tveimur stigum minna en Grindavík, sem á leik til góða eins og fyrr sagði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024