Intersport-deildin: Njarðvík og Grindavík vinna bæði sannfærandi
Lítil breyting var á stöðu efstu liða í Intersport-deildinni eftir leiki kvöldsins. Topplið Grindavíkur gerði góða ferð á Ísafjörð og vann sigur 93-110. Þá vann Njarðvík auðveldan sigur á lánlausu liði Þórs frá Þorlákshöfn, 85-66.
NJARÐVÍK-ÞÓR 85-66
Njarðvíkingar áttu ekk í verulegum vandræðum með lið Þórsara, sem hafa ekki séð til sólar síðan þeir unnu fyrstu tvo deildarleiki vetrarins. Þeir hófu leikinn þó vasklega og voru yfir eftir fimm mínútur, en þá tóku heimamenn við sér og náðu forystu sem þeir héldu til leiksloka. Munurinn í leikhléi var þó ekki nema 7 stig, 43-36, en gestirnir náðu þó aldrei að ógna að neinu marki.
Athygli vakti að Njarðvíkingurinn Brandon Woudstra mætti til leiks þrátt fyrir smávægileg meiðsl og lét aldeilis til sín taka. Friðrik Ragnarsson, þjálfari, sagði að hann hefði sagt Brandon að skjóta meira, en hann hefur ekki verið eins áberandi í síðustu leikjum og í fyrstu leikjum sínum fyrir félagið. „Brandon er svoleiðis leikmaður að þegar hann skýtur boltanum hittir hann yfirleitt og þess vegna verður hann að skjóta eins og hann getur.“
Friðrik sagðist einnig vera ánægður með leik kvöldsins þar sem þeir spiluðu ágætlega og unnu tiltölulega þægilegan sigur.
Fyrrnefndur Brandon átti stórleik og skoraði 31 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Halldór Karlsson kom honum næst með 15 stig. Þá átti Páll Kristinsson hörkuleik með 14 stig og 15 fráköst, auk þess sem Guðmundur Jónsson átti góða innkomu sem leikstjórnandi.
Hjá Þór var Nate Brown stigahæstur með 20 stig, en Leon Brisport skoraði 17 stig. Þá skoraði Robert Hodgson 14 stig og tók 13 fráköst.
Hér má finna tölfræði leiksins
KFÍ-GRINDAVÍK 93-110
Grindvíkingar unnu einnig sannfærandi sigur í heimsókn sinni til Ísafjarðar. Munurinn var aldrei mikil í fyrri hálfleik, en þó leiddu gestirnir allan tímann. Eftir hálfleik small svo vörn Grindavíkinga vel saman og náði að halda aftur af erlendu leikmönnunum þremur sem báru Ísfirðinga uppi. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Grindavíkinga sem juku forskotið jafnt og þétt til leiksloka.
Friðrik Ingi, þjálfari Grindavíkinga, var hæstánægður í leikslok. „Þetta var sennilega einn af okkar betri sigrum í vetur. Við vorum alltaf á undan en þegar vörnin fór að ganga upp vorum við orðnir öruggir. KFÍ liðið var sterkt í kvöld og með þessa nýju leikmenn innanborðs eiga þeir eftir að vinna marga heimaleiki það sem eftir er vetrar og örugglega einhverja útileiki líka.“
Darrel Lewis og Páll Axel Vilbergsson sáu að mestu leyti um stigaskorunina í kvöld þar sem Lewis setti 38 stig og Páll 34. Páll bætti við 11 fráköstum en Þorleifur Ólafsson skoraði 13 stig.
Troy Wiley gerði 34 stig fyrir KFÍ og tók 14 fráköst. Bethuel Fletcher gerði 24 og tók 11 fráköst, en JaJa Bey kom næstur með 18 stig og 11 fráköst að auki.
Hér má finna tölfræði leiksins