Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Intersport-deildin: Njarðvík, Keflavík og Grindavík tapa öll
Sunnudagur 1. febrúar 2004 kl. 21:22

Intersport-deildin: Njarðvík, Keflavík og Grindavík tapa öll

NJARÐVÍK-HAMAR 73-90

 

Njarðvíkingar komu inn í þennan leik án þeirra Brentons Birmingham og Brandons Woudstra, sem eru báðir meiddir, en Friðrik Ragnarsson þjálfari þeirra var að vona að liðið myndi vaxa við þessa raun og sýna hvað í því bjó. Styst frá að segja varð honum ekki að von sinni og brugðust þeir stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu í Ljónagryfjuna.

 

Njarðvíkingar léku afleitan leik þar sem hugur leikmanna virtist vera víðs fjarri og Hamarsmenn nýttu sér það til fullnustu. Gestirnir tóku leikinn föstum tökum allt frá fyrsta leikhluta og náðu þar 12 stiga forystu sem þeir héldu allt til loka. Í hálfleik var staðan 24-47 fyrir Hamar en í byrjun þriðja leikhluta keyrðu þeir yfir lánlausa Njarðvíkinga og juku muninn í 30 stig. Heimamenn áttu sínar rispur í seinni hálfleik sem sýndu að þrátt fyrir að lykilmenn vantaði voru samt leikmenn á vellinum sem ættu að leggja Hamar að velli. En allt kom fyrir ekki og eftir hverja rispu duttu þeir niður í sama farið og hleyptu Hamri alltaf fram úr á nýjan leik. Þegar þrjár mínútur lifðu enn af leiknum var munurinn 15 stig og uppgjöfin var alger. Lokatölur voru eins og fyrr segir 73-90 og þurfa Njarðvíkingar að taka sig á áður en illa fer í deildinni.

 

Dómgæslan var harðlega gagnrýnd úr áhorfendastúkunni og af bekkjunum en dómarar leiksins dæmdu tæplega 60 villur í leiknum. Undir lokin voru tveir leikmenn úr hvoru liði komnir út af með fimm villur og Njarðvíkingurinn Páll Kristinsson hafði verið sendur í sturtu fyrir að stjaka við öðrum dómaranum. Þetta er því í annað skipti í tveimur leikjum sem þessi dagfarsprúði leikmaður og sómadrengur gerir sig sekan um óíþróttamannslega framkomu, en honum og Gunnari Einarssyni lenti saman í leiknum á föstudaginn var. Slík hegðun er ekki til eftirbreytni og tekur Páll sér vonandi taki í framtíðinni, en hann mun sennilega missa af bikarleiknum um næstu helgi og versnar þá enn staða Njarðvíkinga.

 

Friðrik var ómyrkur í máli gagnvart frammistöðu sinna manna í leiknum sem hann sagði hafa verið arfaslaka. „Þetta var bara skelfilega lélegt hjá okkur og mér finnst ótrúlegt að það sé ekki karakter í liðinu til að snúa bökum saman þegar á móti blæs. Þetta verður ekki skemmtilegur bikarleikur f fram fer sem horfir. Svo var dómgæslan í kvöld sú versta sem ég hef séð á mínum 18 ára ferli. Þessir dómarar eru þeir alverstu sem ég hef séð!“ Að lokum var Friðrik spurður hvort hann hafi séð eitthvað jákvætt í leik sinna manna í kvöld. Því neitaði hann og sagðist ekkert gott hafa séð.

 

Stigahæstir:

Njarðvík: Friðrik Stefánsson 26/10, Páll Kristinsson 20, Kristján Sigurðsson 9.

Hamar: Chris Dade 24, Marvin Valdimarsson 15.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

 

 

HAUKAR-GRINDAVÍK 89-79

 

Grindvíkingar, sem virtust nær ósigrandi fyrir áramót hafa alls ekki fundið sig í síðustu leikjum og eru nú búnir að missa toppsætið í hendur Snæfellinga með tapi fyrir Haukum á Ásvöllum í kvöld.

Meiðslavandræði Grindvíkinga halda áfram þar sem Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði þeirra og stigahæsti Íslendingurinn í deildinni í vetur, var ekki í leikmannahópnum sökum eymsla í nára. Hans var greinilega sárt saknað, en Stan Blackmon, sem er til reynslu hjá liðinu, virtist ekki geta fyllt í skarðið.

 

Leikurinn var jafn í byrjun og var staðan 23-23 að loknum fyrsta leikhluta. Í þeim næsta voru gestunum eitthvað mislagðar hendur því Haukarnir náðu 10 stiga forystu fyrir leikhlé, 45-35. Í seinni hálfleik náðu Grindvíkingar ekki að saxa á forskotið þrátt fyrir góða viðleitni og misstu því tvö dýrmæt stig í toppbaráttunni.

 

Víkurfréttir náðu ekki sambandi við Friðrik Inga Rúnarsson, þjálfara Grindavíkur, eftir leikinn.

 

Stigahæstir:

Grindavík: Lewis 30, Blackmon 19.

Haukar: Manciel 31/13.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

 

 

SNÆFELL-KEFLAVÍK 94-90

 

Snæfellingar hafa sýnt og sannað í síðustu leikjum að þeir eru ekkert „spútniklið“, heldur eru þeir með heilsteypt lið, góðan og sterkan mannskap og skap til að takast á við þá bestu og hafa unnið síðustu sjö leiki sína og þar á meðal eru lið eins og Grindavík og KR, en í kvöld voru það Keflvíkingar sem máttu bíta í það súra.

 

Strax í fyrsta leikhluta var eins og gestirnir væru ekki vakandi í vörninni, en Hólmarar skoruðu 29 stig gegn 19 stigum Keflvíkinga. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var leikurinn jafnari og höfðu Snæfellingar einungis 4 stiga forystu í leikhléi. Í seinni hálfleik náðu heimamenn aftur undirtökunum og náðu 11 stiga forskoti fyrir síðasta leikhluta. Í honum mættu Keflvíkingar loks til leiks og náðu að jafna leikinn 88-88, en komust aldrei yfir. Umdeilt atvik átti sér stað undir lokin þegar munurinn var 2 stig Snæfelli í vil og Nick Bradford keyrir upp að körfu heimamanna en er stöðvaður af vörninni og vildu Keflvíkingar fá víti fyrir vikið. Ekkert varð af því og Snæfell vann góðan sigur og tyllti sér í toppsæti deildarinnar.

 

Guðjón þjálfari var ekki sáttur með leik sinna manna í leiknum og sagði margt hafa mátt fara betur. „Sóknin var lengi í gang hjá okkur, en svo vorum við að gefa þeim alltof mikið af auðveldum skotum. Svo hefði þetta getað dottið okkar megin þegar var brotið á Nick undir lokin. Dómgæslan var svolítið skrítin þar sem þeir fengu 35 víti og við fengum 17 á móti sem mér fannst of mikill munur, en þeir eru með gott lið og sterka stráka og það verður ekki af þeim tekið.“

 

Stigahæstir:

Keflavík: Allen 28/15, Bradford 28, Arnar Freyr 11, Gunnar Einarsson 11.

Snæfell: Whitmore 33/10, Dotson 18, Hlynur Bæringsson 13/12.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

 

 

Að 16. umferðinni lokinni eru Snæfellingar efstir í deildinni með 26 stig, eins og þegar hefur komið fram, og Grindvíkingar eru í öðru með jafn mörg stig, en lakari árangur í innbyrðisviðureignum. Keflvíkingar og Njarðvíkingar eru í þriðja og fjórða sæti með 20 stig, en Keflvíkingar eiga leik gegn Breiðabliki til góða. Þannig mega liðin herða sig ef Snæfell á ekki að skjóta þeim öllum ref fyrir rass og hirða deildarmeistaratitilinn.

Vf-Myndir: Héðinn Eiríksson og Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024