Intersport-deildin: Keflavík sigrar Þór Þorl.
Keflavík sótti Þór Þorlákshöfn heim í Intersport-deildinni í körfubolta í kvöld og sigraði 72-98. Keflavík stendur í ströngu um þessar mundir þar sem þeir þurfa að spila fjölmarga leiki í öllum keppnum, en þeir virðast halda dampi þar sem þeir lögðu KR á föstudaginn. En á miðvikudaginn mun reyna verulega á þá þar sem Toulon kemur í heimsókn í Evrópukeppni bikarhafa.
Keflvíkingar mættu ákveðnir til leiks og má segja að þeir hafi klárað dæmið í fyrsta leikhluta þegar þeir náðu 14 stiga forystu 17-31. Þórsarar héldu í við gestina í næsta leikhluta en í seinni hálfleik gerðu Keflvíkingar endanlega út um leikinn og unnu öruggan sigur.
Greinilegt var að Keflvíkingar voru með Evrópuleikinn á miðvikudag í huga í kvöld vegna þess að allir leikmenn fengu að spila nóg og komu ungu strákarnir vel út. Enginn lék þó betur en fyrirliðinn Gunnar Einarsson í kvöld þar sem hann skoraði 19 stig þrátt fyrir að hafa einungis leikið hálfan leikinn. Hann hitti m.a. úr 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum. Nick Bradford kom honum næstur í stigaskori með 17 stig og þar á eftir komu Arnar Freyr og Davíð Þór sem stimpluðu sig rækilega inn í leikinn með 14 stig og 12 stig og nýttu sér aldeilis tækifærið sem þeim gafst í kvöld.
Leon Brisport átti góðan leik í liði heimamanna og skoraði 20 stig og tók 16 fráköst. Raymond Robins kom næstur með 17 stig.
Að leik loknum eru Keflvíkingar jafnir Njarðvíkingum í öðru sæti með 14 stig, en Njarðvík á leik til góða. Grindavík leiðir sem fyrr með fullt hús, 18 stig eftir 9 leiki.