Intersport-deildin: Grindvíkingar enn ósigraðir!
Ekkert virðist stöðva Grindvíkinga í Intersport-deildinni. Breiðablik var síðasta fórnarlambið en Grindvíkingar sóttu 2 stig í Smárann með 11 stiga sigri, 72-83, í dag.
Blikar byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta fjórðung, 24-22, en þá tóku Grindvíkingar við sér og höfðu forystu í hálfleik sem þeir létu aldrei af hendi. Grindvíkingar eru enn sem fyrr í efsta sæti deildarinnar og hafa nú 6 stiga forskot á Njarðvíkinga sem töpuðu illa á föstudaginn. Breiðablik er hins vegar 2 stigum frá botninum eftir aðeins tvo sigurleiki.
Stigahæstur Grindvíkinga var Páll Axel Vilbergsson sem skoraði 28 stig, þar af 18 úr 3ja stiga skotum, en Darrel Lewis kom næstur með 24 stig og 12 fráköst. Daniel Trammel gerði 11 stig og tók 18 fráköst.
Mirko Virijevic var stigahæstur Blikanna með 31 stig og hann tók líka 17 fráköst. Ágætis dagsverk það! Loftur Einarsson kom næstur með 21 stig og Pálmi Sigurgeirsson skoraði 12 og gaf 10 stoðsendingar.
TÖLFRÆÐI LEIKSINS