Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ingunn Embla nefbrotnaði í þriðja sinn
Ingunn Embla Kristínardóttir hefur komið sterk inn í Keflavíkurliðið í ár. VF-Myndir/JJK
Fimmtudagur 18. apríl 2013 kl. 14:18

Ingunn Embla nefbrotnaði í þriðja sinn

- Ingunn Embla Kristínardóttir hefur fengið stærra hlutverk hjá Keflavík en hún átti von á

Ingunn Embla Kristínardóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik, hefur fengið stærra hlutverk í liðinu en hún átti von á í upphafi leiktíðar. Hún verður 18 ára gömul í ár og hefur nýtt vel þau tækifæri sem hún hefur fengið með liðinu í vetur. Ingunn Embla hefur leikið yfir 20 mínútur að meðaltali í vetur og stimplað sig vel inn í lið deildar- og bikarmeistara Keflavíkur sem er komið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég hef fengið stærra hlutverk í liðinu en ég átti von á í upphafi leiktíðar. Ég legg mig fram og geri alltaf mitt besta,“ segir Ingunn Embla. Hún er ánægð með að Keflavík sé komið í úrslit. „Það var mjög erfitt að komast áfram og Valsliðið er mjög gott. Það er mikil pressa á okkur, sérstaklega frá fjölmiðlum og við fundum fyrir því. Keflavíkurliðið er mjög ungt með litla reynslu en svo eigum við þrjá mjög reynslumikla leikmenn sem jafnar þetta aðeins út.“

Andlitsgríman truflar ekki

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hefur fylgst með Keflavíkurliðinu í undanförnum leikjum að Ingunn Embla leikur með andlitsgrímu. Hún varð fyrir því óláni að nefbrotna á dögunum. „Þetta er í þriðja sinn sem ég nefbrotna. Þetta gerðist í síðasta leiknum í deildinni gegn Fjölni. Ég var hindruð og fékk óvart olnbogann frá leikmanni Fjölnis í nefið. Þetta var óviljaverk en var mjög vont. Það venst aldrei að nefbrotna,“ segir Ingunn og hlær.

„Ég fékk í kjölfarið nýja og sérsmíðaða grímu og það truflar mig ekkert að spila með hana. Ég sé mjög vel. Ég á að nota hana í nokkrar vikur í viðbót þannig að líklega klára ég mótið með hana,“ segir Ingunn Embla. Hún er spennt fyrir úrslitaeinvíginu gegn KR.

„Ef við erum sterkar og spilum saman sem lið þá hef ég ekki trú á öðru en að við klárum þetta með Íslandsmeistaratitli. Stemmningin í liðinu hefur verið frábær eftir síðustu tvo leiki. Við erum allar mjög góðar vinkonur og vinnum hvor fyrir aðra. Það er mjög góð umgjörð í kringum liðið. Það er mjög gaman að spila fyrir framan svona marga áhorfendur í síðasta leik – smá stressandi en það hvarf um leið og maður fór inn á völlinn,“ segir Ingunn sem ætlar sér að verða lykilleikmaður í Keflavík í framtíðinni.

„Við erum með mjög sterka árganga alveg niður í fimmta bekk og spennandi tímar framundan. Ég stefni að því að vera lykilleikmaður í Keflavíkurliðinu í framtíðinni.“