Ingólfur á toppi styrkleikalistans
Um helgina fóru fram tvö sterk fullorðinsmót í fangbrögðum. Bæði mótin fóru fram í Reykjavík og Njarðvíkingar sendu sína sterkustu menn til keppni.
	Á Vormóti Júdósambands Íslands keppti Ingólfur Rögnvaldsson í -66kg flokki karla, þetta er í fyrsta skipti sem hann er skráður til leiks í þessu móti í fullorðinsflokki. Mótið var gríðarsterkt og tveir af okkar bestu júdómönnum, þeir Vilhelm Svansson (Ármanni) og Dofri Vikar Bragason (JR), voru í flokki með Ingólfi.
	Ingólfur átti góðan dag og með frábærri frammistöðu sigraði hann flokkinn og skellti sér á topp styrkleikalista Júdósambands Íslands í fullorðinsflokki.
Frammistaða Ingólfs er til marks um uppgang júdóíþróttarinnar í Reykjanesbæ en þetta er í fyrsta sinn sem keppandi frá UMFN vermir efsta sæti styrkleikalistans.
	
Ingólfur (hvítur galli) glímir hér við Vilhelm Svansson úr Ármanni.
Íslandsglíman
Bjarni Darri Sigfússon keppti á Íslandsglímu Glímusambands Íslands þar sem keppt er um Grettisbeltið margfræga og hið eftirsótta Freyjumen og titlana Glímukóngur og Glímudrottning Íslands. Í Íslandsglímunni er keppt án tillits til þyngdar þannig að það var við rammann reip að draga fyrir Bjarna Darra sem vegur rétt um 70kg. Hann stóð sig vel í mótinu og þeir andstæðingar sem lögðu hann áttu erfitt með það. Bjarni endaði í fjórða sæti eftir erfitt mót.

 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				