Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ingibjörg Yrsa: Erfitt að velja á milli
Laugardagur 28. janúar 2012 kl. 12:37

Ingibjörg Yrsa: Erfitt að velja á milli

„Ég byrjaði að æfa báðar þessar íþróttir um 6 ára aldur. Ég æfði svo sund fram í 5. bekk en það var ekki nógu mikill tími fyrir þetta allt saman þannig að fótboltinn og körfuboltinn urðu bara að duga,“ segir Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir sem var á dögunum valin íþróttakona Grindavíkur en hún er gríðarlegt efni bæði í fótboltanum og körfuboltanum og á að baki unglingalandsleiki í báðum íþróttum. Ingibjörg Yrsa var lykilmaður bæði í körfubolta- og knattspyrnuliðum Grindavíkur í ár og Ingibjörg fékk 81 stig af 100 mögulegum og Óskar Pétursson markvörður fékk 79 stig, en valið er kynjaskipt.

Yrsa sem er 17 ára stundar nám í Verzlunarskólanum og hún er á fullu með meistaraflokki Grindavíkur sem trónir á toppi 1. deildarinnar í körfuboltanum um þessar mundir. Fótboltanum er aðeins sparkað til hliðar á veturna en Yrsa segir að hún hafi aðeins þurft að slaka á eftir að hún hóf nám í framhaldsskóla. Fyrir tímabilið núna drógu Grindvíkingar sig úr keppni í úrvalsdeild kvenna í körfuboltanum og ekki stóð til að hafa meistaraflokk. Á endanum fór svo að Grindvíkingar tefldu fram ungu liði sem er, eins og áður segir, á góðu róli í 1. deild. „Ég var ekkert voðalega sátt við það í fyrstu að við myndum ekki vera með í efstu deild, en þetta tímabil er búið að vera mjög skemmtilegt og hópurinn er alveg frábær,“ segir hún og er greinilega sátt við sitt núna og stefnan er að hennar sögn tekin beint upp í úrvalsdeildina.

Þegar hún er innt eftir því hvort ekki sé kominn tími til að velja á milli íþróttanna þá svarar hún að bragði: „Jú það fer alveg að koma tími á það, en það er að reynast erfiðari ákvörðun en ég gerði mér grein fyrir,“ en henni finnst ágætt að vera í fótboltanum á sumrin og körfunni á veturna. Báðar þessar greinar eru þó stundaðar meira árið um kring heldur tíðkaðist á árum áður, sérstaklega með komu innanhússhalla í fótboltanum. „Ég held að það væri skynsamlegt að fara að velja, og ef ég vissi hvorri íþróttinni ég hefði meira gaman af þá væri ég búin að því,“ segir hún og hlær. Hún telur að hún sé aðeins betri í fótboltanum og hana langar að komast að í háskóla í Bandaríkjunum en margir liðsfélagar hennar í meistaraflokki Grindavíkur hafa farið þá leiðina og líkað lífið þar vestra.

Hún segir vera góðan skilning á milli knattspyrnu- og körfuknattleiksdeildanna í Grindavík og engin togstreita þar á milli. „Fótboltaþjálfarinn minn skilur þetta alveg. Hann veit að ég mæti þegar ég kemst en ég mæti 1-2 í viku og er svo með í leikjunum,“ segir Yrsa sem leikur ýmist á miðju vallarins eða í vörninni. Hún fór í sumar með U-17 ára liði Íslands og keppti í undankeppni EM, auk þess hefur hún verið viðloðin U-19 ára lið Íslands.

Hún leikur sem skotbakvörður í körfuboltanum en undanfarið hefur hún sett stefnuna á að komast í U-18 ára liðið sem keppir á Norðurlandamótinu í Solna um páskana. Áður hafði hún leikið með U-16 ára liði Íslands.

Það sem ungur íþróttamaður þarf að hafa til brunns að bera að mati Yrsu er fyrst og fremst að hafa gaman af íþróttinni sem maður stundar. „Skipulag og metnaður er nauðsynlegt en ef maður hefur ekki gaman af þessu þá nennir maður ekki að leggja neitt á sig,“ en Yrsa segir að það skemmtilegasta sem hún geri sé að mæta á æfingu, hvort sem það er í fótbolta eða körfubolta. Hún telur það mjög mikilvægt að borða hollan mat og fá ágætis hvíld á milli æfinga. Samt finnur hún tíma til að skella sér í ræktina 2-3 þrisvar í viku. Það verður sannarlega gaman að fylgjast með þessari metnaðarfullu íþróttakonu í framtíðinni en hvort það verði á iðagrænu grasinu eða glansandi parketinu verður tíminn að leiða í ljós.

Hin hliðin á Ingibjörgu Yrsu

Liðið þitt í enska og NBA

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Held með Arsenal í ensku og Boston Celtics í NBA en finnst Oklahoma Thunder líka með mjög skemmtilegt lið.“

Eitthvað sem fáir vita um þig

„Er óvenjulega tápsár í spilum/fifa.“

Skemmtilegasta fagið í skólanum, og jafnframt það leiðinlegasta?

„Held að skemmtilegast fagið séu bara íþróttirnar en leiðinlegasta er íslenska, það er samt bara útaf því ég er lélegust í henni.“

Ef þú mættir vera einhver önnur manneskja í einn dag

„Jennifer Aniston, því hún er svo mikið uppáhald.“

Grindavíkurbær er.... fullkominn.

Kvikmyndin

„Get horft endalaust oft á Love and basketball, Coach Carter og Taken.“

Bókin

„Man ekki hvenær ég las síðast bók en Napóleon skjölin eftir Arnald var mjög góð.“

Sjónvarpsþáttur

„Greys Anatomy, Vampire Diaries, Entourage og Friends.“

Hlutur

„Gæti seint verið án tölvunnar.“

Flík

„Hlaupabuxurnar eru uppáhalds.“

Skyndibiti

„Subway og Dominos.“

Drykkur

„Vatn og Goji berjasafi.“

Tónlistin

„Samkvæmt iTunesinu mínu hlusta ég mest á R&B og Hip Hop/Rap.“

Íþróttamaður

„Rajon Rondo og auðvitað Michael Jordan.“

Netrúnturinn

„Facebook - NBA.com - fotbolti.net - karfan.is“