Ingibjörg snýr aftur til Grindavíkur
Grindavíkurkonur í Domino’s deild kvenna í körfuknattleik halda áfram að styrkja sig fyrir átökin á næstu leiktíð. Ingibjörg Jakobsdóttir hefur ákveðið að leika á ný með uppeldisfélagi sínu og snýr aftur til Grindavíkur eftir að hafa leikið með Keflavík og í Danmörku síðustu ár. Karfan.is greinir frá þessu.
Óhætt er að segja að Grindavík sé að styrkja liðið hressilega en fyrir skömmu gekk Pálína Gunnlaugsdóttir til liðs við Grindavík. Jón Halldór Eðvarðsson mun stýra liðinu á næstu leiktíð og lítur út fyrir að liðið ætli sér stærri hluti en á síðustu leiktíð.
Ingibjörg lék upp yngri flokkana með Grindavík og steig sín fyrstu spor í meistaraflokki þar á bæ. Hin síðustu ár hefur hún verið þónokkuð frá vegna meiðsla en gæti reynst Grindvíkingum afar dýrmæt ef hún kemst í fyrra horf. Ingibjörg náði 13 leikjum með Keflavík á síðasta tímabili en hún kom seint inn í liðið þar sem hún var að flytjast búferlum frá Danmörku til Íslands.
Ágústa Inga Sigurgeirsdóttir, fulltrúi í kvennaráði KKD Grindavíkur, sagði í snörpu samtali við Karfan.is að það væri mjög gaman þegar leikmenn kæmu aftur til uppeldisfélagsins. „Ingibjörg er flott viðbót við glæsilegan leikmannahóp okkar,“ sagði Ágústa.
Ingibjörg er mætt í gult á ný.