Ingibjörg Elva leggur skóna á hilluna
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir leikmaður Njarðvíkinga í Dominos-deild kvenna í körfubolta hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en ásæðan mun vera þráðlát meiðsli í hnénu sem hafa plagað hana.
„Þetta var vissulega gríðarlega erfið ákvörðun en ég verð að hugsa til framtíðar varðandi mig sjálfa," sagði Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir í samtali við vefsíðuna Karfan.is „Ég meiddist á ökkla í leik fyrir skömmu en hef náð mér af því en þetta eru þrálát meiðsl sem ég hef verið að glíma við síðan í mars sem hafa verið að plaga mig. Þetta eru álagsmeiðsl og læknar segja þetta örvefsmyndun í hnénu.“ Sagði Ingibjörg ennfremur.
Þessar fréttir eru svo sannarlega enn ein blóðtakan á liði tvöfaldra meistara UMFN sem hafa núna horft á eftir nánast öllu sínu byrjunarliði síðan í fyrra vetur. „Ég tjáði stelpunum í liðinu mína ákvörðun á föstudag og það var vissulega erfitt en þær skilja mína afstöðu. Þær eiga eftir að spjara sig vel án mín, það kemur maður í manns stað segir einhverstaðar, “ bætti Ingibjörg Elva við.
Ingibjörg sem 24 ára gömul mætti aftur til leiks í heimahaga í Njarðvík í fyrra eftir barnsburð og spilaði hún 13 leiki með liðinu og skoraði í þeim að meðaltali 5 stig. Helsti styrkur Ingibjargar lá í varnarvinnu sinni en þar á Njarðvíkurliðið eftir að sakna hennar gríðarlega.