Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

ÍM25: Ótrúlegur árangur ÍRB
Mánudagur 19. nóvember 2007 kl. 01:23

ÍM25: Ótrúlegur árangur ÍRB

Liðsmenn ÍRB áttu ótrúlegu gengi að fagna á Íslandsmótinu í 25m laug sem haldið var í Laugardalnum um helgina. Alls unnu þau 18 Íslandsmeistaratitla, 12 silfurverðlaun og 12 brons. Einnig settu þau fjöldan allan af Íslands- og aldursflokkkametum.

Afrek Erlu Daggar Haraldsdóttur ber þó hæst, en hún setti alls fimm Íslandsmet á mótinu og hefur verið í jötunham i lauginni að undanförnu.

Á fimmtudag og föstudag höfðu þau unnið til sex gullverðlauna (Hilmar Pétur Sigurðsson, 1500 metra skriðsund, Erla Dögg Haraldsdóttir, 100 metra fjórsund, Árni Már Árnason, 100 metra fjórsund og 200 metra bringusund, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, 50 metra baksund og karlasveit ÍRB, 4*50 metra skriðsundi), sex silfurverðlauna og fjögurra bronsverðlauna.
Tvö Íslandsmet féllu, hjá Erlu Dögg sem bætti nýtt ísl í 100 m fjórsundi um rúma hálfa sek og svo sló karlasveitin 4x50m skriðsund metið um hálfa sek.
Þá tvíbætti Soffía Klemenzdóttir telpnametið í 200 metra flugsundi

Á laugardegi komu 7 Íslandsmeistaratitlar, 3 silfurverðlaun, 6 bronsverðlaun ásamt 5 Íslands- og unglingametum. Þar bar hæst afrek Erlu Daggar sem bætti enn Íslandsmet sitt í 100m bringusundi með þvi að  verða fyrst íslenskra kvenna til að fara undir 1 mín og 10 sek. Hún sigraði einnig í 50m flugsundi, 10 mínútum eftir metsundið, og gerði það með yfirburðum.
Soffía Klemenzdóttir setti enn eitt telpnametið, nú í 400 metra fjórsundi og sigraði í greininni með yfirburðum. 
Þá sigraði Árni Már Árnason með glæsibrag í 100 metra bringusundi þar sem ÍRB vann þrefalt því Guðni Emilsson hlaut silfurverðlaun og Gunnar Örn Arnarson náði í bronsverðlaunin.
Þá var röðin komin að Birki Má Jónssyni og hans aðalgrein, 200 metra skriðsundi, en hann sýndi yfirburði sína í greininni með öruggum sigri. 
Trompinu var síðan spilað út í boðsundum þegar karla- og kvennasveitir ÍRB sigruðu með glæstum hætti í 4x50 metra fjórsundi. Karlasveitin bætti sitt eigið Íslandsmet um rúmlega sekúndu, frábær árangur. Í sama sundi setti piltasveitin piltamet og hafnaði þar að auki í þriðja sæti.
Þá gerði stúlknasveit ÍRB sér lítið fyrir og stórbætti stúlknamet sameiginlegrar sveitar Reykjavíkurliða frá árinu 2005.

Á sunnudegi hélt sigurgangan áfram þar sem Erla Dögg og Soffía bættu enn um betur. Erla setti tvö Íslandsmet í viðbót, fyrst í 200m fjórsundi og nokkrum mínutum seinna bætti hún aftur sitt eigið Íslandsmet í 50m bringusundi.
Soffía setti telpnamet í 100m flugsundi þar sem hún bætti 10 ára gamalt met Kolbrúnar Ýrar Kristjánsdóttir og var í öðru sæti.
Þá setti drengjasveit ÍRB nýtt drengjamet í 4x100m skriðsundi, en sveitina skipa Vilberg Andri Magnússon, Hermann Bjarki Nielsson, Ingi Rúnar Árnason og Rúnar Ingi Eðvarðsson. Þeir unnu til silfurverðlauna. Kvennasveit ÍRB vann brons í sömu grein
Davíð Hildiberg vann í 200m baksundi. Birkir Már í 400m skriðsundi, og Árni Már vann í 200m fjórsundi.

Þessi árangur er með ólíkindum, en þó hefur sundfólk ÍRB sýnt það og sannað í gegnum árin að þau eru til alls líkleg og eiga mörg þeirra eflaust eftir að fara langt á sínu sviði.

VF-mynd/Stefán-Sigursveit ÍRB í 4x50m fjórsundi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024