Igor hefur verið að berja í okkur sjálfstraustið
Serían er jöfn og fer oddaleikurinn fram í DHL-Höllinni á þriðjudag. Grindvíkingum tókst í dag að gera það sem fæstir áttu von á er þær jöfnuðu metin í 2-2 eftir að hafa verið 2-0 undir. Grindavík og KR mættust í sínum fjórða leik í úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik í dag þar sem Grindavík hafði góðan 91-83 heimasigur á Vesturbæingum í miklum spennuleik.
Tiffany Roberson fór mikinn í liði Grindavíkur í dag með 35 stig, 14 fráköst og skoraði hún úr öllum 9 vítaskotum sínum í leiknum. Candace Futrell gerði 27 stig og tók 12 fráköst hjá KR. Lykilmenn beggja liða lentu í töluverðum villuvandræðum í dag og í Grindavíkurliðinu var það Ólöf Helga Pálsdóttir sem steig vel upp á meðan þær Petrúnella og Jovana glímdu við villuvandræðin.
,,Fólk ætti að vera búið að átta sig á því að við erum lið með mikinn karakter. Igor sagði við okkur að við unnum 11 leiki í röð í vetur og því ættum við alveg að geta unnið þrjá í röð,” sagði Ólöf Helga Pálsdóttir sem gerði 13 stig fyrir Grindavík í dag og setti niður þrjár af fjórum þriggja stiga tilraunum sínum. ,,Igor þjálfari hefur að undanförnu verið að berja í okkur sjálfstrausti og það er að skila sér,” sagði Ólöf kát í leikslok.
Grindvíkingar voru hungraðra liðið í upphafi leiks og með þriggja stiga körfu frá Petrúnellu Skúladóttur var staðan 14-6 fyrir gula. KR átti þó fínan lokasprett í fyrsta leikhluta sem lauk í stöðunni 26-18 fyrir Grindavík.
Gestirnir voru mun ákveðnari í öðrum leikhluta og þegar brotið var á Candace Futrell skoraði hún og fékk víti að auki og kom KR í 28-29. Í þessum leikhluta reyndist svæðisvörn KR-inga þétt og góð og Grindvíkingar í mesta basli. Sigrún Ámundadóttir og Futrell voru líflegar hjá KR sem og Skiba í liði Grindavíkur. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 44-46 fyrir KR.
Lykilleikmenn beggja liða áttu í villuvandræðum og voru þær Jovana, Petrúnella og Ólöf allar með þrjár villur í hálfleik sem og Hildur Sigurðardóttir leikstjórnandi KR-inga.
Strax í upphafi þriðja leikhluta fékk fyrirliði Grindavíkur, Jovana Lilja, sína fjórðu villu og hélt því á bekkinn til kælingar. KR hóf síðari hálfleik af krafti og komst í 48-57 en þá fékk Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir sína fjórðu villu hjá KR en hún er rammur varnarmaður að afli og slæmt fyrir Vesturbæinga að missa hana í kælingu.
Grindavík klóraði í bakkann undir lok þriðja leikhluta og var staðan 59-66 fyrir KR fyrir fjórða og síðasta leikhluta. KR vann þriðja leikhluta 15-20 og í öðrum og þriðja leikhluta gerðu KR 48 stig gegn 33 frá Grindavík.
Tiffany Roberson tók góðan kipp í fjórða leikhluta og var allt í öllu í sóknarleik Grindavíkur. Snemma fór Petrúnella Skúladóttir af velli með 5 villur hjá Grindavík og þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka varð Candace Futrell frá að hverfa hjá KR, einnig með 5 villur. Við brotthvarf Futrell virtust Grindvíkingar eflast til muna og á lokaspretti leiksins breyttu heimamenn stöðunni úr 77-75 í 91-83 sem urðu lokatölur leiksins.
Mikil eljusemi hjá Grindavík að neita að játa sig sigraðar í einvíginu eftir að hafa lent 2-0 undir gegn nýliðum KR og munu liðin mætast í oddaleik í Vesturbænum næstkomandi þriðjudag kl. 19:15.
VF-Mynd/ [email protected]- Joanna Skiba sækir að körfu KR í Röstinni í dag.