ÍG tapaði toppslagnum í 1. deild
Það var toppslagur í 1.deild í Röstinni þegar ÍG og KFÍ mættust en fyrir leikinn voru KFÍ menn ósigraðir á toppnum en ÍG í 2.-3. sæti í deildinni. Í lið ÍG vantaði ansi marga leikmenn sem voru uppteknir í öðrum verkefnum þar á meðal Helgana tvo, Helga Jónas Guðfinnson og Helga Már Helgason, Jóhann Ólafsson og Óskar Pétursson.
Byrjunarliðið hjá ÍG voru Haraldur Jón Jóhannesson, Hilmar Hafsteinsson, Guðmundur Bragason, Ásgeir Ásgeirsson og Orri Freyr Hjaltalín en hjá KFÍ byrjuðu Ari Gylfason, Craig Schoen, Kristján Andrésson, Christopher Miller-Williams og Jón H. Baldvinsson.
Það var Ásgeir Ásgeirsson sem opnaði leikinn fyrir ÍG með 2ja stiga körfu en Craig Schoen svaraði um leið og Ari Gylfason bætti svo í fyrir KFÍ en þá kom 6 stig í röð hjá ÍG og staðan 10-4 eftir um þriggja mínútu leik og Pétur Sigurðsson þjálfari KFÍ tók leikhlé og ræddi aðeins við sína menn. Sú ræða vakti greinilega KFÍ menn sem skoruðu næstu 12 stig og staðan þá orðin 10-16 í hröðum og skemmtilegum leik. Nokkuð jafnvægi var það sem eftir lifði leikhlutans og var staðan eftir fyrsta leikhluta 20-26 fyrir KFÍ.
Jafnræði hélst með liðunum í upphafi annars leikhluta en eftir því sem fór að líða á leikhlutann og bæði lið fóru að spila á fleiri mönnum sást að breiddin og formið var betra hjá KFÍ sem stigu hægt og rólega lengra fram úr ÍG og um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 14 stig. ÍG menn reyndu eins og þeir gátu að minnka muninn og þegar stutt var eftir af leikhlutanum var staðan 40-50 en KFÍ skoruðu síðustu 6 stig leikhlutans og leiddu 40-56 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var fjörugur þar sem bæði lið voru að hitta vel en KFÍ menn sáu til þess að ÍG gæti ekki minnkað muninn. ÍG átti mun auðveldara með að skora heldur en í fyrri hálfleik en vörnin var alls ekki nógu góð og því náðu þeir ekki að minnka muninn og staðan orðin 66-83 þegar leikhlutanum lauk. Lítið er hægt að segja um 4.leikhluta. ÍG menn voru búnir að gefast upp og KFÍ gekk á lagið og vann fjórða leikhlutann 12-37 og leikinn 78-120.
Munurinn á liðunum var breiddin og formið. Pétur þjálfari KFÍ var duglegur að skipta mönnum inn og út og dreifðist spilatíminn vel milli leikmanna KFÍ meðan ÍG menn söknuðu sárlega fjölda leikmanna og höfðu því ekki úr eins stórum hóp að spila eins og í síðustu leikjum.
Hjá KFÍ var Ari Gylfason að spila einstaklega vel og skoraði 28 stig á 22 mínútum og var virkilega duglegur bæði í vörn og sókn. Craig Schoen skilaði sínu með 17 stig, 8 stoðsendingar og 6 stolnum. Christopher Miller-Williams var með 20 stig og 13 fráköst en samt var maður alltaf með á tilfinningunni eins og hann ætti meira inni. Jón H. Baldvinsson var síðan með 18 stig og Leó Sigurðsson með 10 stig.
Hjá ÍG voru yfirburðarmenn Haraldur Jón Jóhannesson (21 stig), Guðmundur Bragason (15 stig, 8 fráköst) og Ásgeir Ásgeirsson (16 stig).
Karfan.is