Íbúar Reykjanesbæjar eru duglegir að hlaupa
Gífurleg aukning hefur orðið á því í Reykjanesbæ að fólk fari út að skokka og einnig er fjöldi fólks sem stundar gönguferðir eða hleypur.
Sjötta Hlaupatúttunámskeiðið vinsæla í Reykjanesbæ hefur gengið ótrúlega vel og ætla Hlaupatútturnar að vera duglegar að halda áfram að hlaupa að námskeiði loknu. Mikil hvatning og stuðningur er í því að hlaupa saman og vilja þær endilega að sem flestir fari út að hlaupa með þeim. Opinn hlaupahópur fyrir alla, konur og karla, hleypur saman frá bláa skúrnum, efst á fótboltavellinum við Sunnubraut á mánudögum og miðvikudögum kl.17.30. Það er allir velkomnir að vera með, þeim að kostnaðarlausu.
Nú styttist í Kvennahlaupið sem fer fram laugardaginn 19. júní. Okkur langar að þakka fyrir mjög góða þátttöku á undanförnum árum og biðja konur í Reykjanesbæ að hjálpa okkur að slá metið frá því í fyrra, en þá hlupu um 500 konur. Því fleiri sem eru að hlaupa, því meiri vellíðan er í bænum okkar. Einkunnarorð hlaupsins í ár er „Konur eru konum bestar “. Forskráning í hlaupið fer fram í Sundmiðstöðinni miðvikudaginn 18.júní og föstudaginn 19.júní kl.17-19.
Hlaupatútturnar.