Hvort verður Reykjanesbær blár eða grænn?
Það verður barist um bæinn á miðvikudag þegar stórveldi Reykjanesbæjar, Keflavík og Njarðvík, mætast í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Það má búast við hörðum átökum enda miklu meira en þátttaka í bikarkeppni í húfi – heiðurinn er að veði.
Fyrri viðureignir
Keflavík og Njarðvík hafa mæst í tvígang í bikarkeppni. Í fyrra skiptið árið 1985 þegar leikið var á heimavelli Njarðvíkinga, þá fór Keflavík með þriggja marka sigur af hólmi með mörkum frá Sigurði Björgvinssyni og Helga Bentssyni auk þess sem Njarðvíkingar skoruðu eitt sjálfsmark.
Árið 2019 léku Keflavík og Njarðvík á heimavelli Keflvíkinga og þá voru það Njarðvíkingar sem höfðu betur en aðeins eitt mark var skorað í leiknum og var þar að verki skoski markvarðahrellirinn Kenneth Hogg.
Fyrir utan bikarleiki hafa nágrannaliðin mæst fimm sinnum í deildarkeppni, þar hallar heldur á Njarðvíkinga en Keflavík vann fjórar af þeim viðureignum en einn leikur fór í jafntefli.
Gengi liðanna í sumar
Njarðvík, sem leikur í 2. deild, hefur leikið þrjá leiki og er með fullt hús stiga. Njarðvíkingar eru búnir að skora tólf mörk í þessum þremur leikjum en aðeins fengið á sig eitt svo þeir eru til alls líklegir. Í vor urðu Njarðvíkingar Lengjubikarmeistarar B-deildar.
Keflavík hefur leikið átta leiki, unnið tvo þeirra, gert eitt jafntefli en tapað fimm. Keflvíkingar byrjuðu brösuglega en hafa verið að finna taktinn í síðustu leikjum og í raun þeirra eigin klaufaskap um að kenna að árangur þeirra sé ekki betri en raun ber vitni.