Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hvert lið þarf að eiga sinn Dóa
Laugardagur 3. mars 2012 kl. 08:18

Hvert lið þarf að eiga sinn Dóa


Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.

Um síðustu helgi fór fram fótboltamót til minningar um flottan fótboltamann og enn betri persónu, hann Ragnar Margeirsson. Þá var tækifærið einnig notað og fé safnað til styrktar fjölskyldu annars mikils meistara sem fallinn er frá, Sigursteins Gíslasonar. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska. Virkilega flott framtak og skemmtilegt mót sem er komið til að vera. Þarna voru saman komnir menn á besta aldri sem voru hvað ánægðastir með að komast í búningana. Það var greinilegt að þarna voru einnig komnir menn sem vissu svo sannarlega hvað gera átti við fótbolta þó að líkaminn væri stundum seinn að svara kallinu. Ég hitti svo marga þeirra seinna um kvöldið á öðrum árlegum viðburði sem herrakvöld Keflavíkur er. Þar sleiktu menn sárin í góðum félagsskap og studdu við bakið á sínu uppáhaldsfélagi í leiðinni. Þarna voru margir af helstu stuðningsmönnum Keflavíkurliðsins sem nauðsynlegir eru hverju íþróttafélagi sem vill ná árangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á bak við hvert farsælt íþróttafélag stendur hópur af fólki sem sinnir hinum ýmsu verkum og fær oftast nær lítið lof fyrir. Flestir inna sína vinnu af hendi án nokkurar greiðslu og í sínum eigin dýrmæta frítíma. Einhverjir fá greiðslu fyrir sem er ekkert endilega í samræmi við þá miklu vinnu sem menn leggja fram. Þetta geta verið stjórnarmenn, sjúkraþjálfarar, búningaverðir, vallarstarfsmenn, liðstjórar, sjúkraflutningamenn, vatnsberar, miðasölufólk eða hvað sem er nánast. Allir hafa þessir einstaklingar það að markmiði að hjálpa þeim sem inni á vellinum eru, að gera það eins vel og kostur er. Þannig hjálpa menn sínu liði. Leikmenn geta, með svona fólk á bak við sig, einbeitt sér að því að spila fótbolta. Þeir mæta í notalegan búningsklefann og finna þar búninginn sinn hreinan og tilbúinn fyrir leik. Fá þá aðhlynningu sem þarf til að vera leikfær og hlaupa út á nýslegið grasið. Sum hlutverk eru stærri en önnur en öll eru þau mikilvæg.


Einn maður gengur lengra en flestir í framlagi sínu á bak við tjöldin. Ég held ég móðgi engan þegar ég nefni Þórólf Þorsteinsson, betur þekktan sem Dóa, í því samhengi. Hann er að mínu mati hið fullkomna dæmi um mann sem vinnur fyrir félagið sitt á bak við tjöldin. Fyrir þá sem ekki vita sér hann til þess að æfingafötin hangi hrein á snaga þess leikmanns sem á þau fyrir hverja einustu æfingu. Einnig passar hann upp á keppnisfötin, að þau séu tilbúin fyrir hvern leik. Þetta gerir hann með dyggri aðstoð Rikku konu sinnar. Að baki sérhvers góðs manns er enn betri kona. Meiri Keflvíkingur er vandfundinn og gerir hann svo miklu meira en að passa upp á búningana. Þegar morgunæfingar voru haldnar fyrir yngri leikmenn Keflavíkur sá hann til þess að leikmenn fengju hafragraut og lýsi áður en haldið var í skólann. Hann styður liðið í blíðu og stríðu og stendur ávallt okkar megin í baráttunni. Hann er alltaf tilbúinn að hjálpa til.


Það er fólk eins og Dói sem eru uppistaðan í alvöru liði. Það er fólkið á bak við tjöldin sem er sálin í íþróttafélögum. Án þeirra er engin sál og án þeirra vinnast engir titlar. Góð umgjörð er nauðsynleg liðum sem ætla sér árangur. Þegar leikmönnum líður vel spila þeir vel og þess vegna eru „Dóarnir“ nauðsynlegir hverju liði.