Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Hvatningarverðlaun til efnilegra í Grindavík
    Efnilegt íþróttafólk í Grindavík hlaut hvatningarverðlaun á gamlársdag. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Hvatningarverðlaun til efnilegra í Grindavík
Mánudagur 5. janúar 2015 kl. 09:25

Hvatningarverðlaun til efnilegra í Grindavík

Á kjöri íþróttamanns og íþróttakonu ársins í Grindavík á gamlársdag voru veitt svokölluð Hvatningarverðlaun til efnilegs íþróttafólks í Grindavík. Það eru deildir UMFG, Golflkúbbur Grindavíkur og Hestamannafélagið Brimfaxi sem sjá um að tilnefna. Eftirtaldir fengu Hvatningarverðlaunin 2014:

Elísabet María Magnúsdóttir - Sunddeild UMFG
Elísabet María hefur æft sund af kappi í mörg ár og verið í fremstu röð í sínum aldursflokkum í gegnum alla flokka og leiðir uppbyggingastarfið sem er í gangi hjá sunddeildinni um þessar mundir. Hún hefur alla burði til að ná langt í því sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.

Thelma Lind Árnadóttir - Fimleikadeild UMFG
Hún hefur sýnt miklar og góðar framfarir í vetur og áhugi hennar á sinni íþrótt er virkilega brennandi. Mæting alltaf í toppstandi - dugleg og metnaðarfull stelpa hér á ferð sem getur aldeilis átt framtíðina fyrir sér í fimleikum.

Guðmundur Ásgeir Sigurfinnsson - Júdódeild UMFG
Guðmundur Ásgeir Sigurfinnson byrjaði að æfa júó fyrir nokkrum mánuðum og frá fyrsta degi hefur hann lagt sig 100% fram. Hann mætir á allar æfingar og fer eftir öllum fyrirmælum og er mikill sómi af honum. Guðmundur hefur aðstoðað við kennslu á æfingum hjá yngri iðkendum og verið þar góð fyrirmynd. Hann hefur mætt á öll mót fyrir UMFG í júdó síðan hann byrjaði og ávallt staðið sig vel. Guðmundur er góð fyrirmynd og á eflaust eftir að láta mikið að sér kveða í júdó íþróttinni í framtíðinni.

Ingi Steinn Ingvarsson - Knattspyrnudeild UMFG
Hann stundaði sínar æfingar af kappi þrátt fyrir erfið meiðsli sem hann varð fyrir á árinu og kom sterkari til baka um mitt sumar. Ingi Steinn toppaði frábært ár með því að verða boðaður á úrtaksæfingar fyrir U17 landsliðið og spilað sinn fyrsta meistaraflokks leik. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi félagisins t.a.m. dómgæslu og þjálfun hjá yngri flokkum félagsins. Hann hefur vaxið og dafnað með hverju árinu og sýnt miklar framfarir á öllum sviðum. Ingi Steinn Ingvarsson er öðrum iðkendum til fyrirmyndar í leik og starfi.

Helga Guðrún Kristinsdóttir - Knattspyrnudeild UMFG
Helga Guðrún var mikilvægur hlekkur í kvennaliði m.fl kvenna keppnistímabilið 2014 þrátt fyrir ungan aldur og var valin efnilegasti leikmaður tímabilsins. Hún var valin á úrtaksæfingar hjá U19 landsliðinu. Helga Guðrún hefur tekið þátt í starfi félagsins og dæmdi ófáa leiki hjá yngri flokkum félagsins í sumar. Helga Guðrún er metnaðarfullur íþróttamaður, sem stundar íþrótt sína af miklu kappi og mun ná langt með sama áframhaldi. Helga Guðrún er góð fyrirmynd yngri íþróttamanna.

Kristófer Breki Gylfason - Körfuknattleiksdeild
Hefur tekið mjög jöfnum framförum síðustu ár og er enn að bæta sinn leik. Breki er frábær varnarmaður og nánast undantekningalaust látinn dekka besta sóknarmann andstæðinganna. Hann er draumur hvers þjálfara þar sem hann hugsar alltaf um hag liðsins. Ef Breki heldur áfram að bæta sig eins og hann hefur gert síðustu ár munum við sjá hann í stóru hlutverki hjá meistaraflokki félagsins næstu árin.

Hrund Skúladóttir - Körfuknattleiksdeild UMFG
Þrátt fyrir ungan aldur er Hrund orðin fastamaður hjá meistaraflokki félagsins. Hrund hefur verið ótrúlega dugleg við æfingar og er hún fastagestur í íþróttahúsinu allan ársins hring. Hún mætir á allar sumaræfingar, morgunæfingar og að sjálfsögðu á sínar liðsæfingar. Staðan er þannig núna að hún er með sína eigin æfingatöflu svo hún æfi ekki of mikið. Hrund hefur lagt mikið á sig til að komast þar sem hún er í dag, en hún veit að það er langur vegur framundan og ef hún heldur áfram á sömu braut í æfingum og dugnaði er framtíðin ansi björt hjá þessari ungu körfuboltastelpu.

Ingólfur Hávarðarson - Taekwondodeild UMFG
Ingólfur er einn efnilegasti ungi keppandi landsins. Hann hefur unnið gullverðlaun á nánast öllum mótum sem hann hefur keppt á og sýnir mjög góðan og þroskaðan keppnisanda þrátt fyrir ungan aldur. Ingólfur er með blátt belti í taekwondo og æfir með sérstökum æfingahóp sem er valinn af unglingalandsliðsþjálfurum. Hópurinn er kallaður Ungir og efnilegir og er verkefni til að styðja betur við faglega þjálfun ungra iðkenda sem vilja bæta sig ennfremur í íþróttinni. Hann er annar tveggja iðkenda úr Grindavík í þessum hópi.

Helgi Leó Leifsson - Golfklúbbur Grindavíkur
Helgi stóð sig með prýði í sumar, ástundun og hegðun til fyrirmyndar. Framtíðar kylfingur ef hann heldur áfram á sömu braut.

Sylvía Sól Magnúsdóttir - Hestmannafélagið Brimfaxi
Er áhugasamur hestaíþróttamaður sem stundar sína íþrótt allt árið um kring af miklu kappi hvort sem um ræðir keppni eða þjálfun. Hún hefur sótt þau reiðnámskeið sem henni hafa staðið til boða og á eigin vegum sótt æfingar bæði hjá reiðkennurum og leiðbeinendum, hún hefur ekki látið veður né annað stöðva sig í að mæta á sínar æfingar og sýndi að með miklum dugnaði og metnaði er hægt að bæta sig og ná markmiðum sínum. Sylvía hefur tekið þátt í öllum innanfélagsmótum Brimfaxa og keppt á opnum íþrótta- og gæðingamótum fyrir hönd félagsins með góðum árangri og verið félaginu til sóma bæði inn á velli og utan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024