Hvaða lið endar númer tvö?
Síðasta umferðin í deildarkeppni Iceland Express deildar kvenna fer fram í kvöld þar sem allir fjórir leikirnir hefjast kl. 19:15. Í kvöld ræðst það hvort Njarðvík eða Snæfell komist í úrslitakeppnina og hvaða lið tekur 2. sætið í A-riðli og situr þar af leiðandi hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KR heimsækir Grindavík, Keflavík tekur á móti Hamri, Valur tekur á móti Snæfelli og Njarðvík fær Hauka í heimsókn.
Í baráttunni um 2. sætið er sannarlega allt á suðupunkti. Fari svo að Keflavík vinnur Hamar þá er Keflavík öruggt í 2. sætinu. Vinni Hamar með 5 stigum eða meira og Grinadvík tapar þá endar Hamar númer 2 og Keflavík númer 3, sigri Hamar hinsvegar með 4 stigum eða minna þá endar Keflavík númer 2 og Hamar númer 3.
Fari hins vegar svo að Grindavík vinnur og Hamar vinnur með 4 eða minna þá endar Keflavík númer 2, Hamar númer 3 og Grindavík númer 4. Ef Hamar vinnur með 5 eða 6 þá verður Hamar númer 2, Keflavík númer 3 og Grindavík númer 4, ef Hamar vinnur hins vegar stærra endar Hamar númer 2, Grindavík númer 3 og Keflavík númer 4.
Í neðri hlutanum berjast Snæfell og Njarðvík um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Vinni Njarðvík sinn leik þá komast þær áfram, tapi þær hins vegar og Snæfell vinnur þá kemst Snæfell áfram. En tapi bæði Njarðvík og Snæfell þá kemst Njarðvík áfram.
Það er því ljóst að spennan verður mikil þegar leikar hefjast klukkan 19:15 í kvöld.
Texti og mynd: www.karfan.is