Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Hvað segja stuðningsmenn Njarðvíkur um leikinn í kvöld?
  • Hvað segja stuðningsmenn Njarðvíkur um leikinn í kvöld?
Mánudagur 6. apríl 2015 kl. 10:00

Hvað segja stuðningsmenn Njarðvíkur um leikinn í kvöld?

,,Tækifærið til að leggja KR að velli aldrei verið betra"

Njarðvíkingar leika í kvöld fyrsta leikinn í undanúrslitaeinvígi sínu við KR. Leikurinn fer fram í DHL höll KR-inga í Vesturbænum þar sem að búast má við látum jafnt innan vallar sem utan.

Víkurfréttir tóku nokkra grjótharða stuðningsmenn liðsins tali fyrir kvöldið og fengu þá til að spá í spilin fyrir komandi átök.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhannes Albert Kristbjörnsson, fyrrum leikmaður og margfaldur Íslandsmeistari með UMFN:

Hvernig leggst einvígið við KR í þig?

Ég er ekki einn af þeim sem kiknar í hnjánum í umræðum um KR liðið 2014-2015. Stjórn KR hefur staðið sig gríðarvel síðustu ár og þeir náð að halda vel utan um flottan hóp leikmanna. Dæmi um snilli stjórnar KR er að liðið náði til sín Michael Craion fyrir tímabilið! Með því drógu þeir tennurnar úr Keflavík og plögguðu flottu púsli inn í hópinn!

Njarðvíkingar eru ekki sama lið og hóf tímabilið. Stjórn og þjálfarar liðsins tóku á miðju tímabili erfiðar ákvarðanir sem ollu því að bornir og barnfæddir Njarðvíkingar hættu eða fóru annað. Það var sárt, félagslega og fjölskyldulega, innan félagsins. Á sama tíma var sterkur útlendingur sendur heim. Þetta var áhætta en félagið fékk til sín kanadískan gullmola í kjölfarið, Stefan Bonneau, sem breytti samsetningu liðsins og öllum hlutverkum. Það hefur tekið tíma að hræra þessa nýju blöndu saman en gríðarsterkt og skemmtilegt Stjörnulið getur borið um hve eitruð hún er andstæðingunum.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er hógvær og lítið fyrir að „tala hlutina upp“ en ég verð að viðurkenna að mér lýst vel á seríuna og KR var mitt val þegar ég var spurður hvaða liði ég vildi helst fá í undanúrslitum. KR hefur heilt yfir verið besta lið vetrarins og oft komist upp með að leika sér að eldinum! Þeir hafa síðustu ár verið í þeirri einstöku stöðu að hafa tveggja metra leikstjórnanda sem á sama tíma er sterkasti frákasta-fjarkinn varnarmegin. Ég tel meiðsli hans undanfarið veikja liðið og raska hlutverkaskipan. Tækifærið til að leggja þá hefur aldrei verið betra!  

 

Hvernig meturðu möguleika liðsins inni í teignum gegn Michael Craion? 

Craion er frábær leikmaður og verður ekki stöðvaður af neinum einum leikmanni. Tækifærin gegn honum liggja í að vinna vel í stöðubaráttunni og neita honum um uppáhaldsfærin. Sóknarfráköst hans hafa drepið niður baráttuanda margra liða og mikið liggur við að takmarka þau. Þeir Snorri, Hjörtur og Óli Helgi gerðu betur gegn Atkinson hjá Stjörnunni er margur hafði talið mögulegt. Hann skilaði góðum tölum en þurfti að hafa verulega fyrir öllu sem hann gerði. 

Michael Craion, leikmaður KR

Nú er stutt síðan liðið spilaði síðasta leik sinn á meðan KR hefur verið í góðri pásu. Telurðu að það eiga eftir að hamla liðinu eða mögulega vinna með Njarðvík?

Ég hef alveg grátið hvíldina sem KR og Tindastóll fengu. Þetta unnu þessi lið sér inn með yfirburðum í deildarspilinu. Ég hef því smá áhyggjur af þeim Loga og Stefan sem spilað hafa margar mínútur í vetur. Þeir eru hins vegar þvílíkir naglar að þeir geta þetta alveg. Logi hefur verið ótrúlegur í vetur, einn besti varnarmaður deildarinnar á sama tíma og hann hefur haldið áfram að vera stórhættulegur sóknarmaður. Stefan er enn einn eðalkarakterinn sem komið hefur til Njarðvíkur og hæfileikar á vellinum eru ótrúlegir að auki! Ég held að hvíldin vinni með KR en er þess fullviss að sá þroski og sjálfstraust sem ávannst í Stjörnuseríunni vegi upp á móti hvíld.

Má búast við því að Njarðvíkingar fjölmenni í Vesturbæinn í kvöld eða mun þorri Njarðvíkinga sitja heima og horfa á leikinn í sjónvarpinu?

Ég held að Njarðvíkingar fjölmenni. Áhangendur liðsins lærðu af Stjörnumönnum í stúkunni á sama tíma og liðið fékk eldskírn á vellinum. Vona ég að áhorfendur haldi áfram að færa mig „aftur í fortíðina“, til þeirra forréttinda sé ég fékk að upplifa sem leikmaður. Vona bara að KR-ingar fjölmenni líka og úr verði ógleymanleg rimma.

Stefan Bonneau í kröppum dansi gegn KR í vetur

Hvernig upplifir þú stígandann í liðinu frá því að Stefan Bonneu gengur til liðs við liðið? Er mögulega eitthvað annað sem að spilar inní hvernig liðið hefur þétt sinn leik hægt og bítandi?

Stefan er frábær strákur, krútt eins og eiginkonan segir. Á sama tíma er hann eitruð blanda af tækni og líkamlegri getu sem pakkað hefur verið í litlar gjafapakkningar! Við getum samt ekki þakkað honum alla breytinguna á liðinu eins og einhverjir hafa haldið fram. Það fengu allir leikmenn ný hlutverk, sem þeir þurftu í senn að sætta sig við og fullnýta og alls ekki sjálfsagt að hvorugtveggja gangi upp. Þá spila endurkomur Óla Helga og Snorra stórt hlutverk í bætingu liðsins.  

Einhver skilaboð til leikmanna liðsins fyrir kvöldið?

Lifið í núinu, njótið stundarinnar! Takið áhættu og fórnið ykkur hvor fyrir annan!

 

Agnar Már Gunnarsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs UMFN:

Hvernig leggst einvígið við KR í þig?

Það leggst bara vel í mig, fer bjartsýnn inní það einvígi eins og allir úr Njarðvík.

 

Hvernig meturðu möguleika liðsins inni í teignum gegn Michael Craion?

Það verður erfitt en krefjandi verkefni fyrir leikmenn okkar en hann er bara mennskur eins og allir inná vellinum og Frikki og Teitur eru örugglega með eitthvað djúsí í pokanum sínum til að hægja allavega á honum.

 

Nú er stutt síðan liðið spilaði síðasta leik sinn á meðan KR hefur verið í góðri pásu. Telurðu að það eiga eftir að hamla liðinu eða mögulega vinna með Njarðvík?

Held að Njarðvík eigi eftir að njóta góðs af því að hafa tekið eina af svakalegustu seríum sem menn muna eftir og koma á tánnum inní 4-liða úrslitinn á meðan KR hafa verið á æfingum á sama tíma.

 

Má búast við því að Njarðvíkingar fjölmenni í Vesturbæinn í kvöld eða mun þorri Njarðvíkinga sitja heima og horfa á leikinn í sjónvarpinu?

Njarðvíkingar eiga það hrós skilið að þeir mæta vel alltaf ekki bara þegar vel gengur eða bara í úrslitakeppni. Sum liðin bjalla í stuðningsmannasveitir annara íþróttagreina til að peppa upp stemmningu hjá sér en það þurfum við ekki að gera og ég veit að við munum vinna í stúkunni sem og á vellinum.

 

Hvernig upplifir þú stígandann í liðinu frá því að Stefan Bonneu gengur til liðs við liðið? Er mögulega eitthvað annað sem að spilar inní hvernig liðið hefur þétt sinn leik hægt og bítandi?

Stígandinn hefur verið góður þar sem menn hafa verið að læra inná Stefan og þó hann sé að skila ágætis tölum þá gerir hann ansi marga betri í kringum sig. Menn hafa verið að tala um að Njarðvík sé bara „one man team“ en það eru þeir sem hafa ekki mikinn leikskilning á leiknum, erum með mjög gott heilsteypt lið sem á eftir að ná langt í íþróttinni.

 

Einhver skilaboð til leikmanna liðsins fyrir kvöldið?

Njóta þess að spila fyrir framan fólkið sitt sem mætir á leikinn, láta gleðina skína úr andlitinu. Öll pressan er á KR þar sem menn töluðu um að þeir myndu ekki tapa leik á tímabilinu og aldrei tapa seríu í úrslitakeppni og svo framvegis en við í stúkunni höfum trú á ykkur í þessu verkefni og ég veit að þið hafið trú líka, þannig að ,,go for the kill" og náið í þennan sigur.

 

Sigurður Svansson, einn aðaldriffjöður stuðningssveitar UMFN:

Hvernig leggst einvígið við KR í þig?

Einvígið leggst gríðarlega vel í mig þetta eru tvö flott körfuboltalið sem hafa mikla sögu og vonandi verða leikirnir frábær skemmtun.

Hvernig meturðu möguleika liðsins inni í teignum gegn Michael Craion? 

Craion er náttúrulega mjög sterkur þarna inn í teig enn ef Njarðvíkurliðið spilar vörnina saman eins og í oddaleiknum við Stjörnuna halda þeir honum niðri.

 

Nú er stutt síðan liðið spilaði síðasta leik sinn á meðan KR hefur verið í góðri pásu. Telurðu að það eiga eftir að hamla liðinu eða mögulega vinna með Njarðvík?

Þetta er einhvað sem ég held að skipti ekki miklu máli. Bæði lið eru kominn í undanúrslit í úrslitakeppni og annað hvort blasir úrslitin um Íslandsmeistarann við eða sumarfr. Held að hvorugt liðið kjósi sumarfríið.

 

Má búast við því að Njarðvíkingar fjölmenni í Vesturbæinn í kvöld eða mun þorri Njarðvíkinga sitja heima og horfa á leikinn í sjónvarpinu?

Ég hvet alla Njarðvíkinga að fjölmenna og mæta í grænu. Stemmingin hefur verið svakalega góð hjá okkur heilt yfir í vetur og þá sérstaklega í úrslitakeppninni. Strákarnir þurfa að fá góðan stuðning og allir Njarðvíkingar eru tilbúnir að gefa þeim hann.

 

Hvernig upplifir þú stígandann í liðinu frá því að Stefan Bonneu gengur til liðs við liðið? Er mögulega eitthvað annað sem að spilar inní hvernig liðið hefur þétt sinn leik hægt og bítandi?

Fyrir tímabil voru miklar breytingar á liðinu, bæði þjálfara- og leikmannaskipti, það tekur alltaf tíma að slípa þetta saman og mér finnst liðið  vera að toppa á réttum tíma. Stefan hjálpar okkur mikið enda er þetta rosalega flottur og skemmtilegur leikmaður.

 

Einhver skilaboð til leikmanna liðsins fyrir kvöldið?

Ef þið hafið jafn mikla trú á verkefninu og ég hef þá tökum við þetta. Áfram Njarðvík!