Hundrað leikir hjá Hólmari
Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Rúnarsson lék sinn 100. leik fyrir Keflavík þegar liðið mætti Víkingum á þriðjudagskvöld.
Hólmar er 24 ára gamall miðjumaður og lék sinn fyrsta leik fyrir Keflvíkinga gegn ÍA þann 10. september árið 2000. Síðan þá hefur Hólmar leikið 82 leiki í efstu deild, gert 10 mörk og á einnig að baki 18 leiki í 1. deild þar sem hann gerði 6 mörk. Þá hefur Hólmar einnig leikið 16 bikarleiki fyrir félagið og 8 Evrópuleiki og gert samtals 7 mörk í þeim leikjum.
Aðeins tveir leikmenn í Keflavíkurliðinu í dag hafa leikið fleiri leiki en Hólmar en það eru þeir Þórarinn Kristjánsson, 130 leikir, og Guðmundur Steinarsson 126 leikir.
„Ég var drullustressaður þegar ég kom inn á gegn ÍA,“ sagði Hólmar léttur í bragði þegar Víkurfréttir höfðu samband. „Ég man vel eftir þessum fyrsta leik en ég fékk nú ekki mikið að koma við boltan í leiknum,“ sagði Hólmar en í þessum fyrsta leik hans fyrir Keflavík gerðu þeir jafntefli við Skagamenn 2-2 þar sem þeir gulu gerðu jöfnunarmarkið á síðustu sekúndum leiksins.
„Ég á nú alveg 100 leiki í mér í viðbót,“ sagði Hólmar og bætti við að sem betur fer væri hann búinn að hlaupa af sér stresshornin í þessum 100 leikjum.
VF-mynd/ [email protected]