Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hundrað keppendur á Evrópumóti öldunga í Leirunni
Þriðjudagur 28. júlí 2009 kl. 14:54

Hundrað keppendur á Evrópumóti öldunga í Leirunni



Um eitthundrað keppendur í flokki 70 ára og eldri karla munu leika á Evrópumóti landsliða í golfi á Hólmsvelli í Leiru í næstu viku. Meðal keppenda er Sigurður Albertsson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja en hann hefur leikið í öldungalandsliðum Íslands í tæp tuttugu ár og aldrei misst úr ár frá því hann varð 55 ára.

Undirbúningur fyrir mótið hefur staðið yfir í nokkurn tíma og er Hólmsvöllur tilbúinn fyrir heimsókn þessara súper senjóra eins og þessir öldungar eru jafnan kallaðir. Í þessum hópi eru nokkrir kylfingar með 5 í forgjöf en Sigurður Albertsson er meðal forgjafarlægstu kylfingum mótsins með 7. Hann er á heimavelli og gæti blandað sér í baráttuna um efstu sætin þegar einstaklingskeppnin fer fram síðasta keppnisdaginn. Fyrstu tvo dagana er leikið í tveggja manna hópum.
Sigurður Garðarsson, formaður GS segir þetta vera stærsta viðburð sumarsins í Leirunni þar sem nærri 90 kylfingar frá Evrópu mæti til leiks. Allir gista þeir á hótelunum þremur í Reykjanesbæ og munu nota þjónustu í boði í bæjarfélaginu.


Sigurður segir undirbúning hafa gengið vel og að ýmsu þurfi að hyggja fyrir svona stórt mót. „GS félagar eru spenntir að fá þessa góðu gesti í Leiruna og við vonum að þessir súper senjórar verði ánægðir með völlinn. Hann er í góðu standi og vallarstjórar og starfsmenn þeirra hafa lagt mikið starf af hendi til að hafa völlinn sem bestan. Mikill tími hefur farið í það að vökva völlinn eftir mánaðar þurrk að undanförnu. Nú lítur hann út eins og alvöru strandvöllur, margar brautir gylltar að lit en teigar og flatir grænar. Ein alvöru rigning er þó fljót að breyta litnum,“ sagði Sigurður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það mun mæða mikið á Gunnari Jóhannssyni, vallarstjóra GS í næstu viku eins og reyndar hefur gert í allt sumar.