Huldumaðurinn í eyranu
Kristján Guðmundsson er enginn áhugamaður þegar kemur að knattspyrnu og nýverið hefur hann sést með búnað í eyranu á meðan kappleikjum Keflavíkur stendur í Landsbankadeildinni. Þessi búnaður er tengdur við síma sem þýðir að Kristján er vísast að eiga samræður við einhvern og hver skyldi það nú vera?
Víkurfréttir vildu endilega forvitnast um af hverju Kristján væri með símann tengdan við eyrað á meðan leik stendur og að vanda lá ekki á svörunum þó Kristján hefði gerst ómyrkur í máli á köflum. ,,Ég er að hlusta á lýsinguna í hinum leikjunum,” sagði Kristján kíminn enda ávallt stutt í gamanið hjá þessu forsetaefni Pumasveitarinnar eins og kallað var úr hópi stuðningsmanna þegar VISA bikarinn fór á loft á tröppum Sparisjóðsins um árið.
,,Ég er með mann í stúkunni, mjög góðan mann, sem fylgist með leiknum og ef það er eitthvað sem hann hefur fram að færa þá hringir hann í mig og við ræðum málin. Ég segi ekki hver maðurinn er en þetta er mjög góður maður. Þetta hjálpar mjög mikið og það er alltaf eitthvað sem kemur í ljós hjá þeim sem horfir á leikinn úr stúkunni,” sagði Kristján og vildi ekki gefa upp hver huldumaðurinn í eyranu væri.
Því er ekki að neita að þeir sem horfa á knattspyrnuleiki úr stúkunni sjá völlinn betur en þeir sem sitja á varamannabekknum eins og þjálfarar og leikmenn. Tæknin er því enn eina ferðina að ryðja sér betur til rúms í íþróttum og verður fróðlegt að sjá hvernig hún mun á komandi árum hafa í för með sér breytingar á íþróttaheiminum.
VF-Mynd/ [email protected] – Kristján á Kópavogsvelli með huldumanninn í eyranu.