Hulda og Alexander íþróttafólk Grindavíkur
Körfuknattleikskonan Hulda Björk Ólafsdóttir og pílukastarinn Alexander Veigar Þorvaldsson voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Grindavíkur 2023. Karlalið Pílufélags Grindavíkur var útnefnt íþróttalið Grindavíkur 2023 og körfuknattleiksþjálfarinn Danielle Rodriguez þjálfari Grindavíkur 2023.
Á grindavik.is er sagt frá valinu og umsagnir um íþróttafólkið.
Hulda Björk Ólafsdóttir, íþróttakona Grindavíkur
Hulda er fyrirliði meistaraflokks kvenna. Hún er ótrúlega traust og trygg sínu liði, er mikill liðsmaður og mikil fyrirmynd fyrir bæði körfuknattleiksdeildina sem og UMFG í heild sinni. Hulda vill alltaf gera betur og leggur sig alltaf fram í að verða betri og tók hún þá ákvöun að gefa ekki kost á sér í landsliðið til að hún gæti gefið allt sitt til liðsins.
Alexander Veigar Þorvaldsson, íþróttakarl Grindavíkur
Alexander er einn af fremstu pílukösturum landsins þrátt fyrir ungan aldur og varð m.a. íslandsmeistari í krikket á árinu lenti í 2. sæti í 301. Hann var jafnframt íslandsmeistari með Pílufélagi Grindavíkur í keppni félagsliða og íslandsmeistari í U23 ára. Þá sigraði hann Reykjavík International Games og Akureyri Open. Alexander er í landsliði Íslands í pílukasti og keppti á Evrópumeistaramótinu á síðasta ári með fínum árangri.
Karlalið Pílufélags Grindavíkur, íþróttalið Grindavíkur
Liðið varð íslandsmeistari þriðja árið í röð á síðasta ári með nokkrum yfirburðum. Liðið skipa fremstu pílukastarar landsins sem hafa átt góðum árangri að fagna á mótum innanlands og eiga stóran hlut í vaxandi vinsældum pílukasts í Grindavík og á landinu öllu.
Danielle Rodriguez, íþróttaþjálfari Grindavíkur
Auk þess að vera einn af lykilmönnum meistaraflokks kvenna í körfuknattleik hefur Danielle þjálfað yngri flokka í Grindavík og er aðalþjálfari U16 ára landsliðs stúlkna. Hún er dugleg að bjóða upp á aukaæfingar sem skilar sér í miklum framförum þeirra flokka sem hún þjálfar. Mjög mikil ánægja er með störf hennar af iðkendum, yfirþjálfurum og unglingaráði.