Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hugurinn við grasrótina
Fimmtudagur 21. september 2006 kl. 14:25

Hugurinn við grasrótina

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Sverrisson hefur söðlað um og gerst yfirþjálfari drengja í knattspyrnu hjá Haukum. Freyr kveður þar með Njarðvíkinga sem hann hefur þjálfað síðan 1992. Freyr segir pattstöðu og vissa þrá eftir nýjum verkefnum hafa valdið því að hann hafi gengið í raðir Hauka en á þeim árum sem hann var hjá Njarðvík tók yngriflokkastarfið þar stakkaskiptum svo um munaði. Á uppskeruhátíð mfl. Njarðvíkur í knattspyrnu var Freyr sæmdur silfurmerki félagsins fyrir góð störf í þágu knattspyrnudeildar UMFN.
„Ég hóf störf hjá Njarðvík 1992 og árið 1995 fer ég í fullt starf hjá félaginu sem yfirþjálfari yngriflokka,“ sagði Freyr en hann hefur menntað sig töluvert sem knattspyrnuþjálfari. „Þessa dagana er ég að ljúka A-stigi UEFA sem gefur mér réttindi til þess að þjálfa alls staðar í Evrópu. Það er gaman að vera í þjálfun því í dag er starfrækt öflugt þjálfarafélag þar sem menn koma saman og deila reynslunni. Hér áður fyrr voru menn að leynipúkast með sínar aðferðir en í dag eru menn duglegir að miðla upplýsingum.“

Lærði mikið af Velemir
Um svipað leyti og Freyr hefur störf hjá Njarðvík var Velemir við störf hjá Keflavík en hann var margreyndur júgóslavneskur þjálfari sem þjálfað hefur flest alla stjörnuleikmenn sem komið hafa frá Keflavík síðustu ár. „Þetta var snemma mikil keppni við Velemir og ég lærði mikið af honum. Í dag höfum við náð að byggja starfið ágætlega upp hjá Njarðvík og staðan er sterk. Við eigum sterka stráka í 2., 3. og 4. flokki og meistaraflokkurinn er kominn upp í 1. deild,“ sagði Freyr sem hefur þó ákveðnar skoðanir á knattspyrnumálum í bæjarfélaginu.

Vill samvinnu efstu flokka
Árangur ÍRB í sundinu hefur ekki farið fram hjá neinum og segir Freyr að í stað þess láta leikmenn í 2. og 3. flokki í Njarðvík og Keflavík vera að keppa í sitt hvoru lagi þá eigum við að vinna saman með flokkana og tefla þeim fram sem einu liði og hvergi hika frá því að taka stefnu á Íslandsmeistaratitil í a- riðil. „Ef við hugsum hátt með þessa flokka þá geta þeir verið með bestu liðum á landinu og það skilar eingöngu sterkari leikmönnum í meistaraflokkana,“ sagði Freyr en hann taldi þetta vera góðan tímapunkt til þess að hætta störfum hjá Njarðvík. „Það er gott fyrir báða aðila að fá nýtt blóð inn í starfið. Ég fer og kynnist öðru félagi og fyrir iðkendur í Njarðvík verður gott að kynnast nýjum þjálfara,“ sagði Freyr.

Á konunni mikið að þakka
Ásamt því að vera yfirþjálfari yngriflokka hjá Haukum mun Freyr áfram sinna störfum sínum hjá KSÍ en hann stjórnar fyrir knattspyrnuskóla Íslands fyrir 14 ára stráka á sumrin. Freyr er einnig aðstoðarþjálfari hjá U 17 og U 19 ára karlalandsliðinum ásamt því að vera landsliðsþjálfari U 16 ára. „Þetta eru orðnir 60 landsleikir, 50 erlendis og 10 hér heima. Sigurleikirnir eru 21, ósigrarnir 28 og 11 jafntefli en alls hef ég heimsótt 15 þjóðlönd sem landsliðsþjálfari,“ sagði Freyr sem á konu sinni mikið að þakka. „Ég á konu minni mikið að þakka. Þetta hefði ekki verið hægt sem fjölskyldumaður ef hún hefði ekki staðið vel við bakið á mér,“ sagði Freyr sem fagnaði á dögunum 15 ára brúðkaupsafmæli. Freyr hefur oft verið spurður að því af hverju hann taki ekki að sér þjálfun meistaraflokka en hann segir hugann vera við grasrótina eins og er. „Ég vil þakka öllum þeim góðu aðilum sem störfuðu með mér hjá Njarðvík, þar vil ég helstan nefna Leif Gunnlaugsson, framkvæmdastjóra deildarinnar, en við höfum átt farsælt starf allan þann tíma sem ég starfaði hjá Njarðvík,“ sagði Freyr að lokum og útilokaði ekki að snúa aftur í Njarðvíkurnar sem þjálfari er fram líða stundir.

 

Myndir: Úr einkasafni

 

Mynd 1: Freyr ásamt ungum iðkendum í Njarðvík

Mynd 2: Freyr og knattspyrnugoðið Ruud Gullit í Moldavíu árið 2003.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024