Hugur Sigurðar leitar út fyrir landsteinana
„Ég er ekki búinn að ákveða neitt eins og staðan er núna,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson körfuknattleiksmaður í Keflavík sem liggur undir feldi þessa dagana og á enn eftir að taka ákvörðun með framtíð sína. Sigurður er með tilboð frá Keflavík, Grindavík og KR en er ekkert að drífa sig að taka ákvörðun.
„Ég ætla ekki að taka þessa ákvörðun í flýti. Auðvitað kitlar það að vera áfram hjá Keflavík en ég er aðallega að reyna að komast að hjá erlendu liði. Það eru einhverjar þreifingar í gangi og ég er eiginlega til í hvað sem er ef boltinn er góður,“ segir Sigurður sem var valinn í úrvalslið Iceland Epress deildar karla á lokahófi KKÍ sem fram fór um helgina.
Sigurður var lykilmaður í liði Keflavíkur í vetur sem vilja ólmir halda í leikmanninn. „Keflvíkingar vilja að ég skrifi undir strax eins og önnur lið sem hafa rætt við mig. Það er viðurkenning fyrir mig að það séu lið sem eru á eftir mér.“
[email protected]