Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hugsaði um að hætta í fótbolta
Klár í slaginn: „Ég fékk í raun ekki nægilega góða meðhöndlun og komst eiginlega aldrei yfir það. Ég hef ekki náð mér 100% síðan. Ég var hugsanlega of ákafur og hlustaði ekki á líkamann. Þetta var bara hálfgert kæruleysi og þrjóska“. VF/mynd Eyþór Sæm.
Laugardagur 22. nóvember 2014 kl. 09:00

Hugsaði um að hætta í fótbolta

Meiðslin og andlega hliðin í boltanum - Alexander aftur í efstu deild

Knattspyrnumaðurinn Alexander Magnússon skrifaði undir samning hjá Keflvíkingum fyrir helgi og mun hann því leika með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Hann vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir vasklega framgöngu með Grindvíkingum áður en meiðsli settu strik í reikninginn. Á tímabili óttaðist hann að ferilinn væri búinn, en það tók talsvert á andlegu hliðina hjá leikmanninum. Alexander er þó brattur í dag og er hvergi nærri búinn að segja sitt síðasta í boltanum.

Bakvörðurinn sterki meiddist nokkuð illa í leik gegn ÍBV árið 2012. Þá fékk hann högg á hnéð svo að snerist illa upp á það. „Ég man vel eftir þessum kvölum sem fylgdu og það voru margar svefnlausar nætur vegna verkja. Ég kláraði leikinn haltrandi og spilaði svo nokkra leiki eftir það án þess að fara í myndatöku. Þá fór þetta allt í rugl.“ Alexander vill ekki kenna öðrum um hvernig fór en hann hefur verið að glíma við meiðsladrauginn síðan. „Ég tek þetta alveg á mig. Maður treystir kannski á að liðið geri eitthvað fyrir mann. Ég er þó orðinn fullorðinn og hefði vel getað farið og látið athuga þetta. Ég var bara klaufi að gera þetta ekki sjálfur strax.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kæruleysi og þrjósku um að kenna

Alexander viðurkennir að hann hafi fyrst um sinn sagt við þjálfara Grindavíkur að hann væri í góðu lagi, þrátt fyrir að hann hafi verið sárkvalinn. Hann hafi rifið liðþófa og slitið liðbönd.
„Ég fékk í raun ekki nægilega góða meðhöndlun og komst eiginlega aldrei yfir það. Ég hélt áfram að æfa mikið og spilaði nokkra leiki, það gerði bara illt verra. Ég hef ekki náð mér 100% síðan. Ég var hugsanlega of ákafur og hlustaði ekki á líkamann. Þetta var bara hálfgert kæruleysi og þrjóska,“ viðurkennir hann fúslega. Alexander segir að ekki hafi verið mikið gert til þess að stoppa hann í að æfa, en hann fann fyrir pressu á að spila reglulega. Það hefur hann þó ekki gert síðan meiðslin komu upp árið 2012. Hann hefur aðeins leikið 11 leiki í knattspyrnu síðan. „Það eru allir frekar smeykir við meiðslin, rétt eins og ég sjálfur. Hugurinn hjá mér er búinn að vera við efstu deild alveg frá því að Grindavík féll. Þrátt fyrir að ég hafi ekki efni á því vegna meiðslanna. Ég hugsa bara þannig að mig langi að spila í bestu deildinni á Íslandi.“

„Ég hef hitt íþróttasálfræðing. Það gengur mikið út á að reyna að útskýra fyrir manni að lífið sé ekki bara fótbolti. Mér fannst það ekki hjálpa mér mikið. Lífið snýst mikið um fótbolta hjá mér“

Hann segir það drepleiðinlegt að vera fyrir utan völlinn í styrktaræfingum meðan félagarnir æfa. Það taki á andlegu hliðina og geti verið erfitt. „Það er glatað að lenda í þessu. Ég hef hitt íþróttasálfræðing sem hefur átt að hjálpa mér andlega séð. Það gengur mikið út á að reyna að útskýra fyrir manni að lífið sé ekki bara fótbolti. Mér fannst það ekki hjálpa mér mikið. Lífið snýst mikið um fótbolta hjá mér, maður er búinn að vera í þessu síðan maður var gutti. Ég veit þó auðvitað að það er líf utan fótboltans. Kærastan og strákurinn minn hafa verið virkilega þolinmóð við mig og eiga miklar þakkir skildar fyrir alla hjálpina,“ segir Alexander.

Útlitið var orðið svart

Alexander horfir bjartsýnisaugum á framtíðina en þó hafi komið sá tími að hann hafi hugsað til þess að allt geti farið á versta veg. Læknir ráðlagði honum einnig að sennilega væri best að hætta. „Ég hef fulla trú á því að þetta lagist og ég geti komið tilbaka. Ég hef þó nokkrum sinnum hugsað að allt fari á versta veg og að ég þyrfti að hætta í fótbolta. Eins og í sumar. Þá hefði ég líklega getað spilað fleiri leiki með Grindavík. Mér fannst ég bara ekki ráða við álagið að æfa fimm sinnum í viku til þess að geta spilað. Ég hugsaði því á tímabili að það væri kannski bara best að hætta. Maður þarf að hugsa um framtíðina og að geta labbað eftir tíu ár. Þetta var bara orðið það svart. Hugsunin verður brengluð hjá manni í þessum aðstæðum. Þetta er ekkert alsæmt, það er ekki eins og löppin sé farin af.“ Alexander segir að hann hafi þjáðst eftir hverja æfingu og jafnan legið í sófanum með kælipoka.

Væri skrýtið að finna ekki til

Á dögunum fór Alexander í speglun þar sem hreinsað var til í hnénu, ef svo má segja. Hann segir ekkert öruggt hvað varðar bata. Það séu þó jákvæðar blikur á lofti og hann vonast til þess að Keflvíkingar aðstoði sig við að ná bata. Alexander fer að æfa á næstunni og vonast til þess að verða heill heilsu þegar nær dregur sumri. „Ég er ekkert að stressa mig þar sem undirbúningstímabilið er alveg heil þrjú ár,“ segir Alex léttur í bragði. „Fjöldi leikmanna hefur meiðst og komið til baka. Ég er ekkert eini gæinn í heiminum sem er að standa í þessu. Ef sá dagur kæmi og maður myndi ekki finna fyrir þessu, það yrði eitthvað skrýtið. Maður stefnir bara á að vera í toppstandi næsta sumar og taka á þessum köllum í efstu deild,“ segir Alexander kokhraustur að lokum.