Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hrund og Jón Axel íþróttafólk Grindavíkur 2019
Guðmundur Bragason faðir Jóns Axels tók við verðlaununum í hans fjarveru en það er nóg að gera hjá Jóni Axel vestanhafs. Hér er hann ásamt Hrund Skúladóttur, íþróttakonu Grindavíkur 2019.
Mánudagur 6. janúar 2020 kl. 11:00

Hrund og Jón Axel íþróttafólk Grindavíkur 2019

Körfuknattleiksfólkið Hrund Skúladóttir og Jón Axel Guðmundsson voru á gamlársdag útnefnd íþróttafólk Grindavíkur árið 2019, við hátíðlega athöfn í Gjánni.

Hrund Skúladóttir er lykilleikmaður með meistaraflokki kvenna í körfuknattleik. Á árinu átti hún stóran þátt í því að koma liðinu upp í Domiosdeildina auk þess að vera lykilleikmaður með unglingaflokki. Hrund lék á árinu með U20 ára landsliði Íslands í Kosovó.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Axel Guðmundsson spilar með Davidson háskólanum í Bandaríkjunum og er á sínu síðasta ári þar. Hann gaf á árinu kost á sér í nýliðaval NBA og var boðið á æfingar með Sacramento Kings og Utah Jazz. Jón Axel lék með íslenska landsliðinu á árinu og fékk mikið lof fyrir leik sinn. Nafnið hans er á á The Naismith Trophy Top 50 watch list sem er mjög mikill heiður.

Allar deildir UMFG, Golfklúbbur Grindavíkur, Brimfaxi, GG og ÍG áttu kost á því að tilnefna íþróttamenn og íþróttakonur úr sínum röðum. Kjörið fór þannig fram að valnefnd sem samanstendur af tíu einstaklingum, þ.e. aðalstjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar fær kjörseðla í hendur. Hver fulltrúi í valnefnd greiddi þremur konum og þremur körlum atkvæði sitt með þeim hætti að sá sem settur var í efsta sæti fékk 10 stig, sá sem settur var í annað sæti 7 stig og sá í þriðja sæti 5 stig. Allir tíu greiddu atkvæði og mest var því hægt að fá 100 stig.


Þrjár efstu í kjöri á íþróttakonu ársins

1. Hrund Skúladóttir, körfuknattleikur 83 stig
2. Sylvía Sól Magnúsdóttir, hestaíþróttir 65 stig
3. Guðný Eva Birgisdóttir, knattspyrna 50 stig

Þrír efstu í kjöri á íþróttamanni ársins

1. Jón Axel Guðmundsson, körfuknattleikur 77 stig
2. Matthías Örn Friðriksson, pílukast 72 stig
3. Jóhann Dagur Bjarnason, hjólreiðar 25 stig

Tilnefningar til íþróttamanns Grindavíkur 2019

Jóhann Dagur Bjarnason, hjólreiðar
Jón Axel Guðmundsson, körfuknattleikur
Jón Ásgeir Helgason, hestaíþróttir
Jón Júlíus Karlsson, golf
Marínó Axel Helgason, knattspyrna
Matthías Örn Friðriksson, pílukast
Róbert Örn Latkowski, judó

Tilnefningar til íþróttakonu Grindavíkur 2019

Guðný Eva Birgisdóttir, knattspyrna
Hrund Skúladóttir, körfuknattleikur
Svanhvít Helga Hammer, golf
Sylvía Sól Magnúsdóttir, hestaíþróttir