Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hrikalegt vanmat banabiti Reims
Miðvikudagur 3. nóvember 2004 kl. 23:33

Hrikalegt vanmat banabiti Reims

Keflavík lagði franska liðið Reims Champagne að velli í Sláturhúsinu við Sunnubraut í kvöld með 19 stiga mun, 93-74.

Greinilegt er að Frakkarnir hafa ekki haft fyrir því að kynna sér lið Keflavíkur og þeir hafa vanmetið getu þeirra stórlega. Gunnar Einarsson átti stórleik og gaf tóninn fyrir sína menn strax á fyrstu mínútunum og skoraði fyrstu stig leiksins úr hraðaupphlaupi eftir að hafa stolið boltanum sjálfum.

Vörn heimamanna var loftþétt í allt kvöld og gekk ekkert upp hjá Frökkunum. Þeir voru að taka hrikalega léleg skot sem hrukku af hringnum hvert á fætur öðru. Hinum megin á vellinum fóru Keflvíkingar á kostum þar sem Gunnar var rjúkandi heitur og setti sex 3ja stiga körfur í fyrri hálfleik. Anthony Glover fór líka á kostum og réðu stóru menn Reims ekkert við hann.

Eftir að nokkuð jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar stungu Keflvíkingar algerlega af. Þeir breyttu stöðunni úr 9-10 í 31-13 á skömmum tíma, en Frakkarnir minnkuðu muninn í 31-18 áður en fyrsti fjórðungur kláraðist.

Annar fjórðungur bauð upp á meira af því sama þar sem Gunnar og Glover fóru fyrir baráttuglöðum Keflvíkingum og jókst munurinn stöðugt. Mestur varð hann 26 stig, 47-21, og takturinn var gjörsamlega horfinn úr gestunum. Staðan í hálfleik var 53-33.

Í upphafi seinni hálfleiks bjuggust flestir við að Keflvíkingar myndu hægja á leiknum og nýta sér muninn, en sú varð ekki raunin. Munurinn jókst enn og þjálfari Reims, Francis Charneux var að springa úr reiði á hliðarlínunni. Liðsmenn hans voru alveg á hælunum og þrátt fyrir að þeir næðu að kroppa lítið eitt í forskotið í síðasta fjórðungnum var getuleysi þeirra algert. Magnús Gunnarsson, sem hafði ekki hitt vel fram að því setti þrjá þrista í síðasta fjórðungi og kæfði vonir Reims fyrir fullt og allt.
„Keflvíkingar komu mér ekki sérstaklega á óvart,“ sagði Charneux í samtali við Víkurfréttir í leikslok. „Það voru mínir leikmenn sem komu mér á óvart. Þeir komu hingað og héldu að þeir þyrftu ekkert að hafa fyrir leiknum.“

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, var vígreifur þegar sigurinn var í höfn. „Þetta var flottur leikur hjá strákunum. Gunni Einars spilaði frábærlega í kvöld og gaf tóninn. Við erum búnir að vera að stilla okkur inn á þessa keppni og það gekk vel upp. Þeir voru kannski full værukærir, en kannski gefur þessi leikur það til kynna að körfubolti á Íslandi er betri en menn halda.“

Gunnar Einarsson sagði að hann hafði fundið á sér að hann ætti gott kvöld í vændum. „Ég fann það strax í upphitun að ég var meira en klár í leikinn. Þeir komu á æfingu hjá okkur um daginn og hálfpartinn hlógu að okkur. Þessvegna eru þeir eðlilega svekktir að tapa svona fyrir amatöraliði. Við sýndum að við geturm spilað á sama leveli og atvinnumenn og ef við vinnum útileik erum við í góðum málum í riðlinum.“

Stigahæstir:

Keflavík: Glover 33, Gunnar E 28, Magnús 16.

Reims: Gillet 11, Ignatowicz 11/10, Fletcher 11/13.

Tölfræði leiksins

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024