Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hreggviður skoraði og sá rautt
Hreggviður með sitt annað gula spjald og fær því að sjá það rauða. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 13. júlí 2023 kl. 10:52

Hreggviður skoraði og sá rautt

Grindavík og Njarðvík léku bæði heimaleiki í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær. Grindvíkingar tóku á móti Þór frá Akureyri en Njarðvíkingar fengu Fjölnismenn í heimsókn. Báðir leikir enduðu með jafntefli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Grindvíkingar settu oft stífa pressu á gestina án þess að ná að klára sóknirnar.

Grindavík - Þór (1:1)

Leikur Grindavíkur og Þórs var kaflaskiptur, í fyrri hálfleik voru Þórsarar meira við stjórnvölinn en í þeim seinni komust Grindvíkingar aðeins betur inn í leikinn. Það voru samt Grindvíkingar sem sköpuðu sér hættulegri færi í leiknum og áttu m.a. sláarskot.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust gestirnir yfir eftir að hafa sótt hratt í gegnum hálfsofandi vörn Grindavíkur (64'). Við það að lenda undir settu heimamenn mikið púður í að jafna og komust nærri því nokkrum sinnum.

Símon Logi setur hann yfir úr ákjósanlegu færi.

Símon Logi Thasapong var ekki alveg með skotskóna reimaða á sig því hann fékk nokkur dauðafæri en inn vildi boltinn ekki. Dagurinn var svo kórónaður þegar Símon fékk svo að líta gula spjaldið fyrir að reyna að fiska vítaspyrnu en sá sem þetta skrifar var staddur í nokkurra metra fjarlægð og sá atvikið nokkuð vel, í mínum bókum hefði vítaspyrna verið réttur dómur.

Grindvíkingar björguðu þó stigi undir lok leiks þegar Marko Vardic fékk boltann í teig Þórsara. Hann gerði vel í að koma sér í færi sem hann afgreiddi í netið, óverjandi fyrir markvörð Þórs.

Walid Birrou Essafi gerði vel að verja víti en það dugði ekki til. Fjölnismenn náðu frákastinu og skoruðu.

Njarðvík - Fjölnir (1:1)

Það má segja að leikur Njarðvíkur og Fjölnis hafi verið litríkur og sigur getað fallið beggja megin. Fjölnismenn byrjuðu betur, voru meira með boltann, en Njarðvíkingar lögðu áherslu á varnarleik og að sækja hratt.

Fjölnismenn voru nærri því að taka forystuna snemma í leiknum. Þeir sóttu að marki heimamanna og náðu góðu skoti utan teigs sem Walid Birrou Essafi varði vel. Gestirnir fengu hornspyrnu og upp úr henni áttu þeir sláarskot, boltinn féll fyrir sóknarmann rétt við marklínu og virtist vera að klára dæmið og skalla boltann í netið en á ótrúlegan hátt komst Gísli Martin Sigurðsson fyrir boltann og bjargaði á línu.

Á 22. mínútu áttu Njarðvíkingar vel útfærða skyndisókn þar sem boltinn barst út á vænginn til Oliver Keelart, hann sendi fyrir markið á Oumar Diouck sem afgreiddi boltann í netið. Keelart var hins vegar dæmdur rangstæður og markið stóð ekki.

Undir lok fyrri hálfleiks fengu Fjölnismenn vítaspyrnu en Essafi fór í rétt horn og varði frá Bjarna Gunnarssyni, frákastið féll hins vegar fyrir fætur vítaskyttunnar sem skoraði og kom Fjölni yfir (44').

Það gekk á ýmsu þessar lokamínútur fyrri hálfleiks því Bjarni fékk svo beint rautt spjald í uppbótartíma þegar hann fór með sólann í tæklingu við Joao Ananias Jordao Junior sem lá eftir.

Njarðvíkingar mættu því manni fleiri til seinni hálfleiks og voru ákveðnir í að jafna metin. Það tókst þegar um tíu mínútur voru liðnar af háflleiknum, þá tók Hreggviður Hermannsson hornspyrnu og skrúfaði boltann í nærhornið án þess að markvörðu Fjölnis næði að koma vörnum við. Hreggviður með mark beint úr hornspyrnu (55').

Hornspyrna Hreggviðs hafnaði í markinu.

Njarðvíkingar sóttu áfram og aftur var Hreggviður á ferðinni, hann lék laglega inn að teig gestanna en missti boltann frá sér og var aðeins of seinn í tæklingu við varnarmann. Hreggviður var á gulu spjaldi og fékk þarna að líta sinn annað gula spjald og því rauttt.

Var því aftur orðið jafnt í liðum og Fjölnismenn komust betur inn í leikinn. Bæði lið fengu ágætis færi en hvorugu tókst að bæta við mörkum og jafntefli því niðurstaðan.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfréttta, kíkti á leikina í gær og eru myndasöfn neðst á síðunni.

Grindavík - Þór (1:1) | Lengjudeild karla 12. júlí 2023

Njarðvík - Fjölnir (1:1) | Lengjudeild karla 12. júlí 2023