Hraustlegur endasprettur UMFN
Njarðvíkingar sigruðu ÍR 3-1 á Njarðvíkurvelli í kvöld. Sigurinn var mikilvægur fyrir þá grænu til þess að missa ekki Stjörnuna og Leikni of langt fram úr sér. Síðustu 15 mínútur leiksins voru hraustlega leiknar af heimamönnum en á þeim kafla vannst leikurinn.
Gestirnir komust yfir á 9. mínútu og það mark gerði Elvar Lúðvík Guðjónsson. Magnús Ólafsson jafnaði svo metin fyrir Njarðvíkinga á 17. mínútu með skoti í stöngina og inn en liðin gengu jöfn til hálfleiks, 1-1.
Þegar um korter lifði leiks tóku heimamenn öll völd á vellinum og gerðu tvö mörk með 9 mínútna millibili.
Michael Jónsson átti fast skot að marki ÍR sem Kjartan Páll Þórarinsson varði í horn. Úr hornspyrnunni barst boltinn til Sverris Þórs Sverrissonar sem lék af sér einn varnarmann ÍR og þrumaði boltanum í netið. Njarðvík 2-1 ÍR.
Friðrik Valdimar Árnason, markvörður Njarðvíkinga, sá um undirbúning þriðja marksins en hann tók hátt og langt útspark sem lenti aftan við vörn ÍR og þar kom á harðahlaupum Michael Jónsson, lagði boltann fyrir sig og renndi honum hægra megin við Kjartan í markinu. Njarðvík 3-1 ÍR og Friðrik markvörður með stoðsendingu.
Mikilvæg þrjú stig sem Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld en þeir leika næst gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ föstudaginn 5. ágúst.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]