Hraðlestin rúllaði yfir Þórsara
Deildarmeistararnir frá Keflavík virðast til alls líklegir í úrslitakeppni Iceland Expressdeildarinnar, en þeir unnu sannfærandi sigur á Þór Akureyri í fyrsta leik liðanna í kvöld.
Lokatölur í Toyotahöllinni voru 105-79 og var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn lenti.
Keflvíkingar komu út í leikinn eins og grenjandi ljón þar sem Bobby Walker og sérstaklega Magnús Þór Gunnarsson voru óstöðvandi, en Magnús var með 16 stig strax í fyrsta leikhluta, þar af fjórar þriggja stiga körfur.
Munurinn jókst smátt og smátt og eftir 3ja stiga körfu Gunnars Einarssonar, um leið og tíminn leið út í leikhlutanum, var munurinn orðinn 17 stig, 37-20. Vörn Þórsara réði ekkert við Hraðlestina sem var kominn á fulla ferð.
Gunnar hóf einnig annan leikhluta með þriggja stiga körfu og það var ljóst í hvað stefndi. Munurinn fór allt upp í 24 stig og var staðan í hálfleik 61-40.
Seinni hálfleikur var ekki spennandi áhorfs þar sem úrslitin voru nær ráðin, en bæði lið börðust þó grimmt. Þórsarar komust aldrei inn í leikinn þó Cedric Isom ætti góða spretti.
Fjórði leikhluti var skylduverkefni fyrir Keflívkinga en ungu leikmennirnir á enda bekkjarins hjá Sigurði Ingimundarsyni fengu að reyna sig síðustu mínúturnar og stóðu sig vel.
Hittni Keflvíkinga í kvöld var með ólíkindum þar sem þeir settu 19 af 38 3ja stiga skotum sínum (50% nýting). Magnús hitti úr 6 af 11, Walker úr 6 af 8 og Gunnar Einarsson úr 3 af 5. Hittu þeir því úr fleiri þriggja en tveggja stiga skotum.
Tölfræði leiksins hér
VF-mynd/Þorgils - Óðinn Ásgeirsson og Gunnar Einarsson eigast við undir körfunni