Hörkusigur hjá Grindvíkingum
Grindavík vann góðan sigur á Víkingum í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í gær en Víkingar eru efstar í deildinni þegar búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Þá hafði RB sigur á KFR í fyrsta leik í úrslitakeppni 5. deildar sem leikinn var í Nettóhöllinni í gær.
Grindavík - Víkingur R. 4:2
Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir snemma leiks (7'). Una Rós Unnarsdóttir jafnaði fimm mínútum síðar (12') og Jada Lenise Colbert kom svo Grindavík yfir með marki úr víti (33'). Víkingar náðu þó að jafna leikinn í 2:2 á lokamínútu fyrri hálfleiks (45').
Ása Björg Einarsdóttir kom Grindavík í forystu á nýjan leik (58') og sigurinn var gulltryggður þegar Víkingar skoruðu sjálfsmark þegar skammt var til leiksloka (81').
Stórgóður sigur Grindvíkinga á deildarmeisturunum en fyrri viðureign liðanna endaði með 3:3 jafntefli. Petra Rós Ólafsdóttir tók myndirnar sem eru í meðfylgjandi myndasafni neðst á síðunni.
RB - KFR 2:0
Eftir að hafa unnið A-rilðil 5. deildar mætti RB Knattspyrnufélagi Rangæinga í fyrsta leik úrslitakeppni 5. deildar í gær. RB hafði tveggja marka sigur með mörkum frá Slawomir Jaworski (19', víti) og Emil Gluhalic (48').
Þetta var fyrri leikur liðanna sem mætast á heimavelli KFR næstkomandi laugardag. RB stendur vel að vígi en það lið sem vinnur viðureignina fer áfram í úrslitaleikinn þann 16. september.