Hörður Axel íþróttamaður Keflavíkur
Hörður Axel Vilhjálmsson var kjörinn íþróttamaður Keflavíkur fyrir árið 2010 í gærkvöldi. Athöfnin fór fram í nýja félagsheimili Keflavíkur að Sunnubraut 34. Íþróttamenn deilda undir Keflavík voru einnig kjörnir og að því loknu var íþróttamaður Keflavíkur tilkynntur en Hörður Axel var einnig kjörin íþróttamaður körfuknattleiksdeildarinnar.
Hörður Axel hefur tekið miklum breytingum frá því að hann lék fyrst með Keflavík. Hann er fyrirmynd ungu kynslóðarinnar, utan vallar sem innan. Hann var lykilleikmaður Keflavíkurliðsins á síðasta tímabili og var liðið hársbreidd frá Íslandsmeistaratitli. Oddaleikur í úrslitaeinvíginu var háður í Keflavík, en hann tapaðist eins og frægt er orðið.
Hörður Axel Leggur mikið á sig til að bæta sig sem leikmaður og stundar morgunæfingar af fullum krafti, oft eins síns liðs. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki halað inn titlum á leiktíðinni, er Hörður Axel verðugur handhafi þessarar tilnefningar. Hann var valinn í Stjörnulið KKÍ fyrir hönd landsbyggðarinnar á dögunum í netkosningu. Það er enn ein vottunin á því að strákurinn hefur stimplað sig inn sem einn af sterkustu leikmönnum Íslands í körfuknattleik.
Hörður Axel hefur sýnt mikinn vilja í að ná langt og á að baki sem atvinnumaður þrátt fyrir ungan aldur. Hann á einnig að baki 16 A landsliðsleiki fyrir Íslandshönd á árunum 2007-9 og mun eflaust vera framtíðar landsliðsmaður Íslands en landsliðið var ekki starfandi árið 2010 vegna skorts á fjármunum.
VF-Myndir/siggijóns
Hörður Axel ásamt Gunnari Jóhannssyni, formanni körfuknattleiksdeildarinnar og Einari Haraldssyni, formanni Keflavíkur.
Haraldur Freyr Guðmundsson var kjörinn knattspyrnumaður Keflavíkur. Haraldur hefur verið atvinnumaður erlendis í 5 ár og spilað með Álasund í Noregi, Apollon FC frá Kýpur ásamt leikjum í yngri landsliðum Íslands á sínum tíma í 18 ára og 21 árs liði. Hann var Íslandsmeistari með meistaraflokki karla í Futsal á árinu, valinn í lið ársins hjá Morgunblaðinu og kjörinn besti leikmaður meistaraflokks karla árið 2010. Haraldur Freyr var valinn í A-landslið í leik gegn Andorra í júní 2010 og hefur leikið alls 2 leiki fyrir A-landslið Íslands.
Jóna Helena Bjarnadóttir var kjörin sundmaður Keflavíkur. Hún hlaut 739 FINA stig fyrir 300 metra fjórsund í 25 metra laug á IM25 og er það jafnframt stigahæsta sund sundmanns Keflavíkur á árinu en hún fékk einnig 672 FINA stig í 400 metra fjórsundi á IM50. Á undanförnum árum, þá hefur Jóna Helena orðið margfaldur íslands- og aldursflokkameistari og ávallt verið í fremstu röð meðal íslenskra sundmanna. Hún hefur jafnframt á þessum tíma verið liðsmaður í landsliði og unglingalandsliði Íslands.
Steindór Sigurðsson var kjörinn taekwondo maður Keflavíkur. Hann hefur staðið sig með eindæmum vel í keppnum á árinu en hann var Íslandsmeistari í vor og vann silfur á bikarmóti BS eftir mjög jafna keppni við reyndari keppendur.
Helena Rós Gunnarsdóttir var kjörin fimleikamaður Keflavíkur. Hún var með hæsta meðaltal siga eftir mót ársins. Í október toppaði hún sig og var í 2. sæti í sínum flokki á Haustmóti Fimleikasambandsins.
Pétur Loftur Árnason var kjörinn badmintonmaður Keflavíkur. Hann hefur verið duglegur að mæta á æfingar og tekið miklum framförum. Einnig hefur hann verið til fyrirmyndar á öllum mótum.
Bára Gunnlaugsdóttir var kjörin skotmaður Keflavíkur. Hún er eini kvennkyns keppandi Keflavíkur og vann til verðlauna í utanfélagskeppni. Einnig vann hún fyrstu verðlaun í fyrsta SKEET-móti sem haldur hefur verið á Íslandi þar sem aðeins konur keppa. Hún tekur titilinn af manninum sínum en hann hefur verið ómetanlegur stuðningur við félagið síðustu ár.
-
Hörður Axel ásamt kærustu sinni Hafdísi Hafsteinsdóttur.