Hörður Axel gerði 29 stig fyrir Keflavík
Íslandsmeistarar Keflavíkur gerðu góða ferð til Stykkishólms í gær er þeir unnu Snæfell 67:62. Keflavík er nú í fimmta sæti Iceland-Express-deildarinnar í körfuknattleik, með 6 stig eftir 5 umferðir. Grindavík og KR eru í efsta sæti með fullt hús stiga, en þau eigast við í næstu umferð á fimmtudag.
Sigurður Ingimundarson, þjáflari Keflvíkinga, var ánægður með sigurinn í gær enda vantaði þrjá lykilmenn í liðið; Gunnar Einarsson var meiddur í baki, Þröst Leó Jóhannsson er kviðslitinn og verður ekki með á næstunni og Jón Norðdal Hafsteinsson sem var meiddur. "'Ég var mjög ánægður með sigurinn í Hólminum í gær. Ungu strákarnir og þeir sem hafa ekki spilað mikið hingað til stigu upp og sýndu hvað í þeim býr. Ég á von á því að Gunnar og Jón Norðdal komi aftur inn í liðið fyrir næsta leik sem verður gegn FSu á heimavelli á fimmtudaginn," sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
Hörður Axel Vilhjálmsson var langstigahæstur leikmanna Keflavíkur í leiknum gegn Snæfelli í gær með 29 stig og þar af 8 þriggja stiga körfur. Staðan í hálfleik var 27-28 en heimamenn voru betra liðið i þriðja leikhluta og voru með 12 stiga forystu, 56-44. Gunnar og Hörður settu niður fjóra þrista og koma Keflavík yfir þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum og staðan 60-61. Góður varnarleikur skilaði svo sigrinum í hús eins og áður sagði. Ungu strákarnir komu vel út í þessum leik.
Aðspurður um hvort deildin hafi farið af stað eins og hann átti von á, sagði Sigurður: "Já, alveg eins. Þetta hefur reyndar verið nokkuð sérstakur tími. Mótið er bara rétt að byrja og það á mikið eftir að gerast. Grindavík og KR hafa byrjað best og það kemur mér ekki á óvart. Þessi tvö lið hafa verið með nánast sama mannskapinn frá því á undirbúningstímabilinu í haust. Á meðan önnur lið hafa farið í gegnum miklar breytingar eftir að þau sögðu upp samningum við erlendu leikmennina. Það tekur alltaf tíma að slípa saman nýtt lið. Ég held að sum þessara liða sem hafa byrjað illa komi til með að rétta úr kútnum og öfugt," sagði Sigurður.
Hann sagðist ekki hafa neinar áhyggjur þó svo að Keflvíkingar hafi ekki byrjað deildina vel. "Við verðum með þennan sama mannskap í vetur og ætlum okkur að vera í toppbaráttunni, það er ekki nokkur spurning," sagði þjálfari Keflvíkinga.
Næstu leikir í Iceland-Express deild karla:
6. nóvember:
Keflavík – FSu
Þór A – Stjarnan
KR – Grindavík
7. nóvember:
Skallagrímur – Njarðvík
Breiðablik – Snæfell
ÍR – Tindastóll
Staðan
1. Grindavík 10
2. KR 10
3. Tindastóll 8
4. Breiðablik 6
5. Keflavík 6
6. Snæfell 4
7. FSU 4
8. Þór A. 4
9. Njarðvík 4
10. Stjarnan 4
11. ÍR 0
12. Skallagrímur 0