Hólmarar niðurlægðu Keflvíkinga – í annað sinn á fjórum dögum
Keflvíkingar léku einn sinn slakasta leik á leiktíðinni þegar þeir steinlágu fyrir frískum Snæfellingum í undanúrslitum Subway bikarkeppninar í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavík í dag. Lokatölur urðu 64-90. Öruggur sigur gestanna sem voru betri en Keflvíkingar á öllum sviðum körfuboltans. „Það eina sem ég get sagt er að við biðjumst afsökunar á frammistöðu okkar. Þetta var hörmung og ég veit ekki hvað er að gerast í liðinu,“ sagði Sverrir Sverrisson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur og undir það tók Guðjón Skúlason, þjálfari sem sagðist orðlaus eftir hörmungar dagsins.
Það var aðeins í byrjun leiksins sem Keflvíkingar náðu forystu en Hólmarar jöfnuðu og eftir fyrsta leikhluta var staðan 21-21. Jafnt var með liðunum í fyrri helmingi annars leikhluta en gestirnir leiddu þó með fimm stigum og bættu um betur næstu fimm mínúturnar og leiddu með 17 stigum í hálfleik 29-46.
Þrátt fyrir slæman leikkafla voru áhagendur heimamanna ekki vonlausir um sigur og vonuðust eftir þrumuræðu frá Guðjóni Skúlasyni, þjálfara Keflavíkur, í leikhlénu. Keflvíkingar hafa oft komið til baka eftir erfiða byrjun.
Keflvíkingar sýndu smá lit í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 14 stig minnst en komust aldrei nær en það. Lokatölur urðu 64-90. Ekki oft sem sem Keflvíkingar skora ekki nema rúm 60 stig í leik og það á heimavelli. Leikmenn Snæfells með Jón Ólaf Jónsson í fararbroddi sem skoraði 23 stig í leiknum, voru miklu grimmari, bæði í vörn og sókn og leikgleðin var allsráðandi. Sjálfstrausið mun meira en hjá heimamönnum sem hittu illa og voru staðir í vörninni. Lykilmenn eins og Gunnar Einarsson og Draelon Burns áttu erfitt uppdráttar og Gunnar sem hefur skorað um 25 stig mjög oft í leikjum vetrarins átti sinn slakasta leik í mjög langan tíma og skoraði aðeins 2 stig og þau komu af vítalínunni. Ellefu skot, sex innan úr teig og fimm fyrir utan 3ja stiga línuna hittu ekki í körfuna. Burns skoraði 16 stig og var óvenju dapur. Hörður Axel var skástur með 20 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 9 stig.
Keflvíkingar sem oft hafa verið nefndir konungar þriggja stiga skotanna, hittu aðeins úr tveimur af 24. Það segir allt sem segja þarf. Nýr leikmaður Keflavíkur, hinn 207 sm. hávaxni Urule Igbavboa kom inn á í þriðja leikhluta og stóð sig ágætlega.
Nú er bikardraumurinn úti en það eru mikil vonbrigði fyrir Keflvíkinga sem héldu að þeir væru komnir í úrslit eftir frækinn sigur á Njarðvík á dögunum.
Elentínus Margeirsson í erfiðiðri baráttu gegn Snæfelli í dag. Á efstu myndinni er Sverrir Þór í sókninni en mátti sín lítils. VF-myndir/Páll Orri Pálsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson var eini Keflvíkingurinn sem lét eitthvað að sér kveða.
Angistarsvipur á Sigurði G. Þorsteinssyni. Þennan svip mátti sjá á mörgum Keflvíkingum í dag.