Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hólmar búinn að skrifa undir hjá Keflavík
Mánudagur 27. október 2014 kl. 16:16

Hólmar búinn að skrifa undir hjá Keflavík

Var orðinn leiður þegar hann yfirgaf æskuslóðirnar

Miðjumaðurinn Hólmar Örn Rúnarsson hefur gengið frá samningum við Keflavík og mun leika með liðinu næstu tvö árin í Pepsi-deildinni. Hólmar er alinn upp hjá Keflavík og á að baki rúmlega 180 leiki með félaginu í meistaraflokki. Hann hefur hins vegar undanfarin fjögur tímabil leikið með FH þar sem hann varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu.

„Ég er mjög ánægður með það að vera kominn aftur til Keflavíkur. Það er vonandi að maður geti aðstoðað við að fara ofan og berjast um Evrópusæti. Ég geri það þó ekki einn míns liðs. Við þurfum að styrkja okkur og halda helstu leikmönnum,“ sagði Hólmar í samtali við VF. Hann segir að það hafi auðveldað honum talsvert ákvörðunina að margir af hans bestu vinum leika með Keflavíkurliðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ef við tölum bara hreint út þá var kominn leiði í mig hjá Keflavík áður en ég fór til FH og nauðsynlegt fyrir mig að komst í nýtt umhverfi“

Þegar hann yfirgaf æskufélagið á sínum tíma var hann orðinn leiður og óttaðist að smita út frá sér neikvæða strauma. „Við misstum af titlinum árið 2008 eins og frægt er orðið og svo sá maður kvarnast úr hópnum næstu árin. Við vorum sífellt í því að byggja upp nýtt lið, en ég hafði eytt nokkrum árum í það. Ég var bara á þeim aldri að ég þurfti að komast í lið sem gæti unnið titill, sem og gerðist. Ég var jafnvel orðinn dragbítur og neikvæður leiðtogi hjá Keflavík. Ég hefði frekar gefið frá mér neikvæða orku eftir því sem ég var að fjarlægjast mín markmið. Ef við tölum bara hreint út þá var kominn leiði í mig hjá Keflavík áður en ég fór til FH og nauðsynlegt fyrir mig að komst í nýtt umhverfi, en það var eitthvað sem ég hélt að myndi aldrei gerast.“

„Ég held að ég sé búinn að þroskast og læra helling af Heimi og félögum hjá FH en þar fara flottir þjálfarar. Þetta telur inn í reynslubankann og maður vonandi getur hjálpað þeim strákum sem eru að koma upp hjá Keflavík. Það var ómetanlegt fyrir mig að fá ráð frá Gunna Odds og Zoran og fleiri köppum þegar ég var að byrja, það er vonandi að ég geti miðlað af minni visku til yngri leikmanna á sama hátt. Svo er bara spurning  hvort þeir hlusti,“ segir Hólmar léttur.

Keflvíkingar standa í viðræðum við bakvörðinn snjalla Guðjón Árna Antoníusson sem lék með Hólmari hjá FH. Áður höfðu þeir félagar leikið í áraraðir saman hjá Keflavík. Hefur Hólmar reynt að sannfæra félaga sinn um að koma aftur til Keflavíkur? „Já, Guðjón veit að ég vil fá hann enda er hann einn traustasti leikmaður sem ég hef spilað með. Ég veit þó ekki hvað hann hyggst gera á þessari stundu.“

Guðjón og Hólmar í bláa búningnum á árum áður.