Hólmar: "Áttum að klára leikinn í fyrri hálfleik"
Hólmar Örn Rúnarsson skoraði glæsilegt mark fyrir Keflavík á Vodafone-vellinum í dag sem dugði þó aðeins til jafnteflis gegn meisturum Vals.
Í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn sagði hann að þó jafntefli væri vissulega ásættanleg uppskera á sterkum útivelli hefðu þeir getað borið meira úr býtum.
„Það er auðvitað svekkjandi að halda þetta ekki út, en Valsararnir voru búnir að pressa okkur nokkuð stíft í seinni hálfleik án þess þó að skapa sér hættuleg færi.“
„Í raun hefðum við frekar átt að gera út um leikinn í fyrri hálfleik með því að setja eitt eða tvö mörk í viðbót. Það þarf alltaf svo lítið til að breyta leiknum þegar staðan er 1-0.“
„Maður getur samt ekki verið alveg rosalega óánægður með að koma hingað og fá eitt stig því Valur er með hörkulið.“
Hólmar bætti því við að stemmningin í hópi Keflvíkinga væri góð. Spilamennskan gengi vel og von á góðum liðsstyrk þar sem Jóhann B. Guðmundsson er væntanlegur aftur úr atvinnumennskunni. Framundan er hins vegar erfið dagskrá. Bikarleikur gegn Breiðabliki og deildarleikur gegn Fylki, báðir á útivelli.
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.
Mynd: Hólmar fagnar marki sínu í dag. Fotbolti.net/Hafliði