Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hola í höggi í þriðja sinn á fjórum árum
Guðmundur fékk viskíflösku í verðlaun fyrir draumahöggið á 16. braut frá Issa veitingamanni í Leirunni.
Þriðjudagur 22. október 2019 kl. 07:45

Hola í höggi í þriðja sinn á fjórum árum

Hefur náð draumahögginu fimm sinnum, fjórum sinnum á sömu holunni í Leiru

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson (Rúnar), fv. skipstjóri og maður ársins á Suðurnesjum 1992, leikur golf í Leirunni flesta daga þegar viðrar til golfiðkunar. Hann byrjaði ekki að stunda golf reglulega fyrr en eftir sextugt þegar hann hætti á sjónum og leikur flesta morgna með sömu félögunum, þeim Kristni Þór Guðmundssyni, Brynjari Vilmundarsyni og Sigurði Friðrikssyni. Í viðtali við þá félaga sem birtist í Víkurfréttum fyrr á árinu sagði Rúnar:

„Við erum ljónheppnir að hafa heilsu til að vera hérna og spila. Mér finnst golf vera góð afþreying og góð útivera. Þetta er ljómandi gott og aldrei kalt. Svo fáum við okkur kaffi hér í golfskálanum á eftir og spjöllum saman áður en við förum heim.“ Það er mikils virði að hafa heilsu til að leika golf frameftir aldri og eiga vini sem stunda það með manni, væntanlega skemmir ekki fyrir skemmtuninni að fara af og til holu í höggi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hefur fimm sinnum farið holu í höggi

Rúnar er augljóslega enginn aukvisi þegar kemur að golfinu, nú í haust fór hann í fimmta sinn holu í höggi.

– Hefurðu alltaf slegið draumahöggið á heimavelli?

„Nei, einu sinni í Bandaríkjunum. Það var á North Shore í Orlando og í fyrsta sinn sem ég fór holu í höggi. Öll hin fjögur hafa svo verið á sömu holunni, þeirri sextándu í Leirunni.“

– Hvenær slóstu fyrsta draumahöggið?

„Blessaður ég man það ekki, það er svo langt síðan.“

Fjölskylduíþróttin

Margir afkomenda Rúnars stunda einnig golf og meðal þeirra er afabarn Rúnars og alnafni, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson yngri, sem hefur tíu sinnum orðið klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja. Þó hann sé búinn að vera lengi í fremstu röð kylfinga er hann samt eftirbátur afa síns sem hefur farið fimm sinnum holu í höggi, sá yngri á það ennþá eftir.

– Nú er nafni þinn með talsvert lægri forgjöf en þú. Ert þú nokkuð að núa salti í sárið og minna hann á þetta, eða hvað?

„Jú, ég minni hann af og til á þetta. Hann er nú ekkert sáttur við það, miklu betri golfari og örugglega búinn að slá nokkur þúsund fleiri högg en ég,“ segir Rúnar hlægjandi.

Guðmundur Rúnar með golffélögum sínum, Brynjari, Kristni og Sidda.

Guðmundur Rúnar var aflakló á sínum yngri árum og skipstjóri á Happasæl KE 94.