Hola í höggi í Grindavík: „Þetta er ekki flókið sport“
„Þetta er ekki flókið sport. Boltinn lenti á flöt, skoppaði tvisvar og rann svo ofan í holu,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, Golfkúbbi Suðurnesja en hann fór holu í höggi á 7. braut á nýbreyttum Húsatóftavelli í Grindavík í gær.
Sjöunda brautin er rúmir 100 metrar og ein af nýjum golfbrautum á stækkuðum Húsatóftavelli. Kjartan var með spútnikk Íslandsmótsins í höggleik, Kristni Óskarssyni í betri bolta styrktarmóti Golfklúbbs Grindavíkur. Þeir fengu 44 punkta og sigruðu í mótinu.
Kjartan Már fór holu í höggi á 8. braut í Leirunni í fyrra skiptið, fyrir mörgum árum síðan. Það var öðruvísi tilfinning að hans sögn því þá sá hann ekki þegar boltin fór í holuna en nú sá hann draumahöggið alla leið.
Þetta var skemmtileg golfvika hjá Kjartani því hann lék sinn besta hring á ferlinum í þriðjudagsmóti Golfklúbbs Suðurnesja fyrr í vikunni. Ummæli hans um hvað golfið sé einfalt eru því kannski skiljanleg en ekki víst að allir séu því sammála.