Hola í höggi í annað sinn
„Þetta var sannkallað draumahögg því boltinn stefndi beint á pinnann allan tímann,“ segir Snæbjörn Guðni Valtýsson, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja, en hann fór holu í höggi á 8. braut Hólmsvallar í Leiru síðasta föstudag.
Snæbjörn sló með 9-járni og hitti boltann vel. „Ég sá hann ekki fara ofan í en var með góða tilfinningu þegar ég gekk upp brautina að flöt og var þokkalega bjartsýnn þegar ég sá ekki boltann við pinnann. Þá var hann í holunni,“ segir Snæbjörn sem hefur einu sinni áður farið holu í höggi, á 16. braut Leirunnar.
Snæbjörn Guðni gerði sér síðan lítið fyrir í næsta hring sem hann fór daginn eftir og lék þá 8. brautina á fugli. Okkar maður greinilega sjóðheitur enda duglegur kylfingur.