Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hógvær og hæfileikaríkur
Fimmtudagur 19. september 2013 kl. 11:32

Hógvær og hæfileikaríkur

Myndin um Ölla lætur engan ósnortinn

Garðar Örn Arnarson hefur undanfarið eitt og hálft ár unnið að metnaðarfullu verkefni þar sem ævi Njarðvíkingsins Örlygs Arons Sturlusonar er viðfangsefni heimildarmyndar sem Garðar leikstýrir. Örlygur sem var einn efnilegasti körfuboltamaður þjóðarinnar, lést aðeins 18 ára gamall árið 2000. Myndin var sýnd nú um Ljósanæturhelgina en í myndinni fá áhorfendur að kynnast lífi Örlygs í gegnum fjölskyldu, vini og aðra sem þekktu til hans. En hver var þessi efnilegi leikmaður sem heillaði alla sem urðu á vegi hans? Eyþór Sæmundsson blaðamaður Víkurfrétta fór yfir stuttan en farsælan feril Örlygs Arons.

Örlygur Aron var kominn af mikilli körfuboltafjölskyldu. Faðir hans, Sturla Örlygsson, var sigursæll leikmaður sem lék með og þjálfaði nokkur íslensk lið í gegnum tíðina. Þó lék hann lengst af með Njarðvík þar sem systkini hans léku einnig við góðan orðstír. Snemma kom í ljós að Örlygur bjó yfir miklum hæfileikum í íþróttinni sem fjölskylda hans unni svo heitt. Hann sjálfur átti miklar fyrirmyndir í föður sínum og frændum og keppnisskapið var Örlygi í blóð borið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann var ákaflega sterkbyggður miðað við aldur og var hann snemma frambærilegur í öðrum íþróttum, m.a. í fótbolta. Örlygur hafði náttúrulega hæfileika þegar kom að körfubolta. Hann var með góðan leikskilning og leikni hans með boltann var afburðagóð. Hann hafði alltaf orð á sér fyrir að vera frábær varnarmaður og var hann lunkinn við það að stela boltanum af andstæðingum sínum.

Örlygur Aron hóf æfingar með Njarðvík þegar hann var á áttunda aldursári og lék með öllum yngri flokkum félagsins. Fyrsta leikinn með meistaraflokki í efstu deild lék hann gegn ÍA 1997, þá 16 ára gamall og enn í 11. flokki. Hann skoraði 10 stig og gaf 7 stoðsendingar í þeim leik. Örlygur hampaði Íslandsmeistarabikarnum með félögum sínum eftir úrslitaviðureignir við KR árið 1998, þar sem leikstjórnandinn ungi lék lykilhlutverk.

Eins og svo marga unga körfuboltastráka dreymdi Örlyg um að reyna fyrir sér meðal þeirra bestu. Þá kom aldrei neinn annar staður til greina en Bandaríkin. Alla dreymdi um að komast í framhalds- og háskóla í Bandaríkjunum og svo er þar sjálf NBA-deildin.

Slær Stephen Curry við

Örlygur fékk tækifæri til þess að leika í Bandaríkjunum. Hann hafði vakið athygli fyrir vasklega framgöngu með yngri landsliðum Íslands og var í kjölfarið boðið að sækja körfuboltabúðir í New Jersey árið 1997. Þar hreifst fyrrum NBA leikmaðurinn, og þáverandi þjálfari framhaldsskólaliðs í Norður Karólínu mjög af leik Örlygs. Kappinn sá heitir Bobby Jones og átti hann farsælan feril með liði Philadelphia 76-ers í NBA-deildinni þar sem hann var hvað þekktastur fyrir öflugan og oft harkalegan varnarleik. Örlygur ákvað að taka boði Bobby Jones um að koma og spila með liðinu sem heitir Charlotte Christian Knights. Ekki leið á löngu þar til Örlygur fór að láta finna fyrir sér í vöggu körfuboltans. Þar náði hann strax fótfestu í sterku liði skólans og sýndi fljótlega leiðtogahæfileika.

Þegar leikstjórinn Garðar Örn og félagar hans heimsóttu gamla skóla Örlygs við vinnslu myndarinnar, komust þeir að því að Örlygur átti ennþá met sem stóðu í skólanum. Þeir sem fylgjast með NBA-deildinni í dag vita eflaust hver Stephen Curry leikmaður Golden State Warriors er. Hann er einn allra besti ungi bakvörður deildarinnar í dag og af mörgum talinn vera besti skotmaður sem leikið hefur í NBA. Curry gekk í sama skóla og Örlygur, og eiga þeir báðir met sem standa þar enn. Örlygur á met yfir flesta stolna bolta á einu tímabili í skólanum og einnig yfir flestar stoðsendingar á einu tímabili. En hann lék aðeins eitt tímabil með liðinu. Örlygur sjálfur var ekki mikið að stæra sig af þessum árangri sínum en fjöldi háskóla vestanhafs höfðu samband við pilt og óskuðu eftir því að fá hann til liðs við sig. Hjarta hans var þó heima í Njarðvík og hann sneri aftur heim eftir tæplega árs dvöl.

„Mér finnst eins og ég hafi þekkt hann alla ævi“

Garðar Örn segir að á þessu rúma ári sem hann hefur unnið að myndinni hafi hann kynnst Örlygi vel. „Ég las minningargrein um Ölla sem Örvar Kristjánsson skrifaði á heimasíðu Njarðvíkur. Þá fór ég að hugsa af hverju minningu hans hefði ekki verið haldið hærra á lofti. Mér fannst pínulítið eins og hann væri gleymdur.“ Garðar segir að allir þeir sem komi að gerð myndarinnar, viðmælendur og fleiri, séu virkilega ánægðir með að verið sé að heiðra hans minningu. Hann segir að við gerð myndarinnar hafi hann sjálfur nokkurn veginn kynnst Örlygi. „Mér finnst eins og ég hafi þekkt hann alla ævi,“ en Garðar hefur átt innileg samtöl við bróður hans, móður og nána vini í ferlinu sem spannar nú orðið rúmt ár. „Maður getur í raun ekki útskýrt þessa tilfinningu. Að þekkja einhvern svona vel, sem maður þekkir þó í raun ekki neitt.“

Upphaflega lagði Garðar af stað með það í huga að kynnast körfuboltamanninum Örlygi Aroni Sturlusyni. Þegar á leið kom svo annað á daginn. „Þetta er rosalega persónuleg mynd. Þetta er ekki bara þessi körfuboltastrákur sem fólk telur sig hafa þekkt.“

Garðar segist hafa rætt fljótlega við fjölskyldu Örlygs sem veitti blessun sína varðandi gerð myndarinnar. Fljótlega eftir það fór Garðar að afla sér upplýsinga um feril Örlygs. „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hann hefði verið svona góður. Þegar við fórum í skólann sem hann sótti úti í Bandaríkjunum kom ýmislegt í ljós. Fólk er ennþá að tala um hann þarna í skólanum og margir kennarar mundu eftir honum. Það kom okkur á óvart.
„Ég man hversu ótrúlegur leikmaður hann var,“ segir Garðar sem var vatnsberi hjá Keflavíkurliðinu þegar Örlygur var að spila með Njarðvík árið 1999, þá 18 ára gamall. Garðar rifjar upp að Örlygur hafi verið ungu strákunum í körfuboltanum mikil fyrirmynd. Það er fyrir löngu orðið goðsagnarkennt í Njarðvík þegar Örlygur ásamt Loga Gunnarssyni, þá báðir 16 ára gamlir, léku lykilhlutverk í Íslandsmeistaratitli Njarðvíkinga árið 1998.

Logi og Örlygur fagna fyrsta og eina titli sínum saman.

Nánast hinn fullkomni íþróttamaður

Logi Gunnarsson er sá leikmaður sem lék flesta leiki á körfuboltavellinum við hlið Örlygs. „Hann var mjög nálægt því að vera hinn fullkomni íþróttamaður. Hann var mjög náttúrulega sterkur og fljótur þar að auki. Það gagnaðist honum mikið, sérstaklega varnarmegin.
Það var allt gott í hans leik. Menn vildu halda honum fyrir utan þriggja stiga línuna því hann var það öflugur í gegnumbrotum í teignum. Þegar hann var farinn að setja þriggja stiga skotin niður reglulega þá var ekkert hægt að gera til þess að stoppa hann. Ölli var að vinna meira í skotinu sínu og ef hann hefði náð að fullkomna það er aldrei að vita hvar hann hefði endað, því hann var með allan pakkann,“ segir Logi um vin sinn.

Sumarið eftir að grunnskólagöngu lauk voru Örlygur og Logi teknir inn í hópinn hjá meistaraflokki hjá Njarðvík þar sem Friðrik Ingi Rúnarsson var við stjórnvölinn. Logi segist hafa fundið fyrir því strax að þeim var ætlað hlutverk í liðinu. Hann man sérstaklega eftir því hve gaman það var að upplifa það með besta félaga sínum að fá að spila með fyrirmyndum þeirra, eins og Teiti Örlygssyni og fleirum kempum.
„Við höfðum aldrei unnið neitt í yngri flokkum þar sem Keflavík og KR voru með mjög öflug lið. Við fengum því þarna uppreisn æru með því að vinna þarna Íslandsmeistaratitil,“ segir Logi þegar hann rifjar upp þennan tíma en hann minnist þess hve Örlygur var vel í stakk búinn til þess að grípa tækifærið á stóra sviðinu.
„Hann var tilbúinn bæði andlega og líkamlega. Sem leikstjórnandi þá þurfti Ölli að binda saman þetta lið sem var fullt af reynslumiklum mönnum. Ég hef aldrei séð tvo 16 ára stráka koma inn í svona lið og hafa mikil áhrif, eins og Ölli gerði svo sannarlega. Ég held að það sé nánast einsdæmi, sérstaklega í ljósi þess að við fórum alla leið og unnum titilinn.“

Eftir að Örlygur kom heim frá Bandaríkjunum 18 ára gamall hafði hann tekið miklum framförum og var oft nefndur í sömu andrá og bestu leikmenn landsins.
„Í mínum huga var hann ekkert efnilegur lengur. Hann var það þegar hann var 16 ára. Eftir að hann kom heim frá Bandaríkjunum 18 ára þá var hann einn okkar besti körfuboltamaður.“

Síðasta tímabil Örlygs var minnisstætt fyrir margra hluta sakir. Örlygur var þá einn af bestu leikmönnum mótsins fyrir áramót. Hann hafði unnið sér sæti í A-landsliði Íslands þar sem hann lék þrjá leiki. Hann var svo valinn í stjörnulið KKÍ fyrstur leikmanna. Örlygur skoraði tæp 15 stig að meðaltali þetta tímabil, gaf 5 stoðsendingar og stal 3 boltum í leik. Þrisvar náði hann svokallaðri þrefaldri tvennu. (Þreföld tvenna er hugtak í körfubolta og á við um það þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu þ.e. 10 eða meira í þremur af eftirfarandi fimm: stigum, fráköstum, stoðsendingum, vörðum skotum og stolnum boltum.) Það þykir ansi merkilegt afrek að ná einni slíkri tvennu á ferlinum en sjá má á þessum tölum hversu fjölhæfur og öflugur leikmaður Örlygur var.

Þann 21. maí hefði Örlygur orðið 32 ára gamall. Þeir sem kynntust honum og sáu hann leika listir sínar á körfuboltavellinum halda minningu hans á lofti hvern einasta dag. Undirritaður var sjálfur þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa notið vináttu Örlygs en hann var fyrst og fremst frábær persónuleiki. Hrífandi og skemmtilegur. Hann var einnig gæddur ótrúlegum hæfileikum í körfubolta.

Myndin um Örlyg hefur fengið frábær viðbrögð síðan hún var frumsýnd á dögunum.