Höfðinglegar afmælisgjafir Sandgerðisbæjar
Bæjarstjórn Sandgerðis samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að styrkja Knattspyrnufelagið Reyni rausnarlega í tilefni 70 ára afmælis félagsins og einnig vegna velgengninnar í ár.
Sigursveinn Bjarni Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Reynis, sagði framlagið afar höfðinglegt. „Viðmótið breytist oft með góðum árangri og þessi styrkur á eftir létta okkur róðurinn í 2. deildinni á næsta ári.“
Aðspurður að því hvað tæki nú við sagði hann að fyrsta mál á dagskrá væri að halda í sem flesta úr liðinu. „Við viljum halda hópnum saman, og svo eftir að við höfum tekið því rólega í um mánuð förum við aftur á fullt. Við stefnum að því að fá til okkar tvo sterka og reynda leikmenn, en það eru engir sérstakir í sigtinu. Sögusagnirnar sem haf verið á fotbolti.net eru alveg úr lausu lofti gripnar.“
Sigursveinn segir Reynismenn hvergi sadda þótt þeir hafi komist upp um deild. „Alls ekki. Við erum ekki að leggja þetta á okkur til að vera í einhverju miðjumoði og ætlum okkur meira. Við verðum að nýta meðbyrinn.“
Í tilefni þess hefur verið sett upp hér á vf.is myndasafn frá síðustu leikjum Reynis í sumar. Ljósmyndarar eru Þorgils Jónsson og Jón Örvar Arason