Hnefaleikafélag Reykjaness sigursælt á Ljósanótt
Gríðarleg stemning var á Boxkvöldi Ljósanætur nú í ár en á boxkvöldinu fór fram ein stærsta boxkeppni landsins í mörg ár. Alls fóru fram tólf bardagar og tóku öll hnefaleikafélög landsins þátt.
Fyrstur í hringinn hjá Hnefaleikafélagi Reykjaness var Björn Snævar Björnsson, yfirþjálfari. Eftir tveggja ára hlé steig hann inn í hringinn og upp í -81kg flokk. Eftir mikla spennu bar Björn sigur úr býtum en hann keppti á móti Þorsteini Helga Sigurðssyni, sem var valinn hnefaleikamaður ársins 2016.
Vikar Sigurjónsson, einn reynslumesti boxari Suðurnesja, keppti gegn Eiríki Sigurðssyni hjá HR-Mjölni. Vikar sýndi gríðarlegan þrótt í bardaga sínum og lagði hann andstæðing sinn niður í gólfið tvisvar. Bardaginn fór í allar þrjár loturnar þar sem Vikar átti öruggan sigur.
Næstur hjá HFR var Magnús Marcin en hann hafði verið í löngu hlé. Marcin keppti við Elmar frá Hnefaleikafélagi Akureyrar. Marcin átti þarna öruggan sigur eftir þrjár lotur í þeim bardaga.
Íslandsmeistarinn okkar, Margrét G. Svavarsdóttir, steig inn á móti Kristínu Sif frá HR-Mjölni. Þær börðust hart út í gegn en að lokum tryggði Margrét fjórða sigur hjá HFR þetta kvöld.
Helgi „Flex“ Guðmundsson, Tae Kwon Do og BJJ þjálfari, kláraði kvöldið með bardaga gegn ríkjandi Íslandsmeistara í -81kg flokki karla. En undir lok tapar Helgi fyrir ríkjandi meistaranum.