Hlíðarendastúlkur áttu ekkert í meistara Keflavíkur
Keflavík vann Val í örugglega í Iceland Express deild kvenna í Keflavík í kvöld. Í lokin munaði 22 stigum, 91-69 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 49-28.
Meistaralið Keflavíkur náði strax undirtökum í leiknum með góðum leik og leiddu eftir fyrsta leikhluta 33-17. Eftir það var aldrei snúið og lið þeirra rauðklæddu frá Hlíðarenda sáu eiginlega ekki til sólar. Þó sýndu þær lit í þriðja leikhluta og unnu hann með 4 stiga mun en það var þó meira fyrir það að heimastúlkur slökuðu á. Valsstúlkur pressuðu Keflavíkurstúlkur og það hjálpaði þeim að minnka muninn. Í fjórða leikhluta komu heimamenn aftur af miklum krafti inn í leikinn, skoruðu tólf stig í röð og gerðu endanlega út um leikinn þegar munurinn varð orðinn 27 stig, 80-53. Jón Halldór Eðvaldsson gat leyft sér þann munað að gefa þeim reynsluminni tækifæri á síðustu mínútunum en það skipti litlu og sigur meistara Keflavíkur var stór og öruggur.
Pálína Gunnlaugsdóttir var í miklum ham og skoraði 24 stig, reif niður 7 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Ekki langt frá tvöfaldri þrennu sem fáir leikmenn ná alla jafna. Svava Ósk Stefánsdóttir var næst stigahæst með 18 stig, 8 fráköst og fjórar stoðsendingar. Mjög góð frammistaða hjá henni líka. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, fyrirliði Keflavíkur skoraði 15 og Birna Valgarðsdóttir var með 13. Hjá Valsstúlkum skoraði Signý Hermannsdóttir 27 stig og reif niður 22 fráköst, þar af helminginn í sókn. Algjör yfirburða leikmaður hjá Val.
Grindavík tapaði óvænt í Stykkishólmi fyrir Snæfelli 85-71 og var það fyrsti sigur hólmara í deildinni í ár.
Haukar verma efsta sætið eftir sigur á Hamri í kvöld sem eru í 2.-3 sæti með Keflavík með tíu stig. Grindavík er í 4.-6. sæti með KR og Val með 6 stig.