Hlaut silfurverðlaun í Dubai
Kristjana H. Gunnarsdóttir, sem tryggði sér enn einn titilinn á Þrekmeistaranum fyrir skemmstu, gerir það ekki endasleppt. Hún hélt utan til Dubai ásamt félögum sínum úr líkamsræktarstöðinni Lífstíl í Reykjanesbæ, þeim Vikari Sigurjónssyni og Helenu Ósk Jónsdóttur þar sem þau tóku, um síðustu helgi, þátt í alþjóðlegu þrekmeistaramóti sem kallast Best of the best. Þar koma saman keppendur alls staðar að úr heiminum, en stærsti hlutinn eru sterkustu keppendur Bretlands, en keppnir sem þessi eru mjög vinsælar þar.
Keppnin er í líkingu við Þrekmeistarann hér á Íslandi nema bara örlítið erfiðari. Klára þarf tíu þrautir sem innihalda þol- og þrekæfingar á eins skömmum tíma og hægt er.
Hópurinn fór einnig á þetta mót í fyrra og virðist kunan vel við sig í eyðimerkurhitanum því uppskeran var góð. Kristjana hlaut silfurverðlaun og Helena bronsið í kvennaflokki og Vikar var í 5. sæti í karlaflokki.
Kristjana, sem hlaut einnig silfrið í fyrra, atti nú kappi við Michelle Parsons, en hún hefur verið í fremstu röð Breta í mörg ár. Kristjana veitti henni harða keppni og var keppnin æsispennandi fram að síðustu greinum. Helena Ósk fékk að reyna sig Sue Regan Watts sem er breskur meistari í flokki 39 ára og eldri.
Keppnin vakti mikla athygli ytra og er ráðgert að sýna frá henni í líkamsræktarstöðvum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að virkja heimamenn til þátttöku, en keppendur hafa að stærstum hluta komið erlendis frá fram til þessa.
Að sögn Lífstílshópsins hefur þeim verið boðið til þátttöku á næsta ári og þau segja að ef fram fari sem horfir, ætti gullið að skila sér upp á klakann innan skamms.